Innlent

Réttindabót samkynhneigðra

Guðrún Ögmundsdóttir
Guðrún Ögmundsdóttir

Guðrún Ögmundsdóttir segir lög um réttarstöðu samkynhneigðra, sem að öllum líkindum verða samþykkt eftir helgi, vera réttarbót sem líkja má við þegar konur fengu sín grundvallarmannréttindi. Með lögunum er verið að eyða öllum ójöfnuði í lögum er varða samkynhneigða.

Annarri umræðu um frumvarpið líkur í dag og verður það síðan lagt fyrir þingið strax eftir helgi. Með því er verið að eyða öllum ójöfnuði í lögum er varða samkynhneigða.

Guðrún Ögmundsdóttir hefur barist lengi fyrir réttindum samkynhneigðra og hún var að vonum glöð í dag. Hún hyggst leggja fram breytingartillögu við frumvarpið í haust sem gefur trúfélögum heimild til að gefa saman samkynhneigða. Hún vonast þó til að kirkjan verði fyrri til.

Í upphafi þingfundar í gær kynnti Sigurjón Þórðarson tillögu sína að breytingum á frumvarpi um réttindi samkynhneigðra. Breytingartillaga fól einmitt í sér að forystumönnum trúfélaga yrði heimilt að staðfesta samvist samkynhneigðra para. Seinna í gær dró Sigurjón hins vegar breytingartillöguna til baka. Ástæðuna segir hann að Samtökunum '78 hafi borist upplýsingar um að ef tillögunni væri haldið til streitu myndi þingmeirihlutinn halda frumvarpinu utan dagskrár. Sigurjón segir að þingmeirihlutinn hafi ekki þorað að taka afstöðu til þess hvort trúfélögum skyldi gefin þessi heimild með lögum.

Sigurjón segir þessi vinnubrögð of oft viðhöfð til að svæfa mál í störfum alþingis. Frumvörp séu lögð fram með miklum hvelli en síðan komist mál ekki á dagskrá. Stjórnarmeirihlutinn hafi komið þeim skilaboðum áleiðis að slík yrðu örlög frumvarpsins ef þingmennirnir þyrftu að greiða atkvæði með eða á móti breytingartillögunni. Þetta atriði sé viðkvæmt sérstaklega þar sem stærsta trúfélag landsins standi gegn því.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×