Innlent

Reykjavík Trópík flutt á Nasa í kvöld

Frá blaðamannafundi fyrir hátíðina inni í risatjaldinu á háskólaplaninu.
Frá blaðamannafundi fyrir hátíðina inni í risatjaldinu á háskólaplaninu. MYND/Heiða Helgadóttir

Dagskrá tónlistarhátíðarinnar Reykjavík Trópík í dag verður flutt á Nasa vegna þess að ekki fékkst skemmtanaleyfi fyrir hvítasunnudaginn í risatjaldinu á háskólaplaninu. Allt hefur þó farið fram með stökustu prýði þau tvö kvöld sem spilað hefur verið í risatjaldinu.

Samkvæmt fréttatilkynningu frá skipuleggjendum Reykjavík Trópík var sótt um skemmtanaleyfi fyrir tveimur mánuðum og fengu skipuleggjendur þá þau skilaboð frá lögreglu að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að leyfið yrði veitt. Því töldu skipuleggjendur sér óhætt að bóka erlendar hljómsveitir sem bóka þurfti langt fram í tímann.

Tveimur klukkustundum áður en hátíðin hófst á föstudaginn, bárust hins vegar þau skilaboð frá lögreglu að leyfi yrði ekki veitt fyrir hvítasunnudaginn, aðeins fyrir fyrstu tvo dagana. Skipuleggjendur eru nú að kanna réttarstöðu sína og hyggjast höfða mál vegna leyfisveitingarinnar.

Hljómsveitin Sleater Kinney sem spila átti á Nasa hefur af þeim sökum verið innlimuð í tónleikadagskrá Trópík en miðar á þá tónleika gilda eftir sem áður. Dagskráin er því sem hér segir:

18:00  Forgotten Lores

18:35  Ghostigital

19:20  Jakobínarína

20:00  Skakkamanage

20:30  Kid Carpet

21:30  ESG

23:00  Sleater Kinney

00:45  Trabant






Fleiri fréttir

Sjá meira


×