Innlent

Frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ ökuréttindalaus

Annar maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ hefur ekki ökuleyfi þar sem hann var sviptur því í eitt ár eftir ölvunarakstur í nóvember á síðasta ári. Samherjar hans vissu ekki af málinu fyrr en í síðustu viku.

Böðvar Jónsson skipar annað sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ. Hann hefur verið á lista Sjálfstæðisflokksins í bænum frá árinu 1994 og skipaði einnig annað sætið á lista flokksins á síðasta kjörtímabili. Böðvar var í nóvember á síðasta ári stöðvaður á Reykjanesbrautinni í reglubundnu eftirliti og mældist þá áfengismagn í blóði hans yfir leyfilegum mörkum og var hann sviptur ökuréttindum í ár. Böðvar hafði verið að skemmta sér kvöldið áður í Reykjavík, farið síðan á hótel og gist þar en lagt snemma á stað daginn eftir til Reykjanesbæjar. Böðvar vildi ekki tjá sig um málið þegar NFS hafði samband við hann. Hann sagðist líta á þetta sem persónulegt mál og hann hefði ekki áhuga á að ræða það í fjölmiðlum.

Mál Eyþór Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Árborg, hefur verið mikið í umræðunni síðustu daga. En Eyþór ók ölvaður á ljósastaur síðstu helgi og stakk af af vettvangi slyssins.

Samkvæmt heimildum NFS hefur listi Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ fundað um málið. Árni Sigfússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ og bæjarstjóri, segir aðra flokksmenn ekki hafa vitað af málinu fyrr en í vikunni. Hann segir engin eftirmál verða af þessu hjá flokknum og telur að ef forystan hefði vitað af málinu, þegar stillt var upp á lista flokksins fyrir um tveimur mánuðum, hefði það engu breytt, þó hann segi alltaf erfitt að svara svona eftir á.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×