Erlent

Fujimori látinn laus úr fangelsi

MYND/AP

Hæstiréttur í Chile lét í gær Alberto Fujimori, fyrrverandi forseti Perús, lausan úr fangelsi gegn tryggingu. Hann á yfir höfði sér ákærur um spillingu og mannréttindabrot í heimalandinu og gera stjórnvöld þar þá kröfu að hann verði framseldur. Dómstólar í Chile eiga eftir að taka afstöðu til þess.

Verjendur Fujimoris fóru fram á að hann yrði látinn laus gegn tryggingu skömmu eftir að hann var tekinn höndum en því var hafnað þá. Fujimori hefur verið í haldi í sjö mánuði en hann berst gegn framsalinu. Ákærurnar eru í tólf liðum og er honum meðal annars gefið að sök að hafa sett á fót dauðasveitir sem eru sagðar hafa myrt minnst tuttugu og fimm manns og hlerað síma fólks án opinbers leyfis.

Forsetinn fyrrverandi er sagður hafa veitt opinberu fé með ólöglegum hætti til leyniþjónustunnar, mútað þingmönnum og útvegað yfirmanni leyniþjónustunnar jafnvirði rúms eins milljarðs króna. Hæstiréttur Chile hefur bannað hinum 67 ára gamla Fujimori að fara úr landi meðan mál hans er enn til meðferðar. Lögfræðingur stjórnvalda í Perú segir þetta auka hættuna á að Fujimori flýi. Mörg hundruð mótmælendur komu saman fyrir utan sendiráð Chile í Perú til að láta í ljós óánægju sína með ákvörðun hæstaréttar og sögðu dómskerfið í Chile spillt.

Fujimori flúði frá Perú fyrir fimm árum og settist að í Japan. Í nóvember síðastliðnum kom hann til Chile og sagðist ætla að bjóða sig fram í forsetakosningunum í Perú sem fóru fram í síðasta mánuði. Hann var þegar handtekinn við komuna til Santiago eftir að stjórnvöld í Perú kröfðust framsals hans. Ekki virðist hafa verið mikil ástæða fyrir hann til að fara frá Japan þar sem kjörstjórn í Perú lagði blátt bann við því að Fujimori fengi að bjóða sig fram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×