Lífið

Islam spilar fyrir stjörnurnar

Yusuf Islam Snýr aftur til poppheimsins í næstu viku þegar hann spilar á Fortune Forum Club.
Yusuf Islam Snýr aftur til poppheimsins í næstu viku þegar hann spilar á Fortune Forum Club.

Það styttist í sögulega endurkomu Yusuf Islam, betur þekkts sem Cat Stevens, en lagahöfundurinn heldur sína fyrstu tónleika í Fortune Forum Club í London. Samkvæmt fréttavefnum contactmusic.com ætla fjölmargar stjörnur að heiðra Islam með nærveru sinni og nægir þar að nefna fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton, og leikarahjónin Michael Douglas og Catherine Zeta Jones auk milljarðamæringsins Richards Branson. Staðurinn er þekktur fyrir að safna fé sem notað er í baráttunni gegn fátækt og hefur fræga fólkið lagt sitt á vogarskálarnar í því brýna verkefni.

Cat Stevens var ein af stórstjörnum hippatímabilsins og samdi lög á borð við Morning Has Broken, Father and Son og Wild World. Hann sagði skilið við tónlistarbransann tveimur árum eftir að hafa snúist til íslamstrúar í lok áttunda áratugarins en fyrsta poppplata hans í 28 ár verður gefin út í nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.