Viðskipti innlent

Seðlabankinn varaði við evrubreytingu

Davíð Oddsson. Seðlabankastjóri Seðlabankinn er ekki fylgjandi því að helstu fjármálafyrirtæki landsins geri reikninga sína upp í erlendum gjaldmiðli. Seðlabankinn varaði Straum-Burðarás við því að gera slíkar breytingar.
Davíð Oddsson. Seðlabankastjóri Seðlabankinn er ekki fylgjandi því að helstu fjármálafyrirtæki landsins geri reikninga sína upp í erlendum gjaldmiðli. Seðlabankinn varaði Straum-Burðarás við því að gera slíkar breytingar.

Seðlabanki Íslands varaði Straum-Burðarás við því að nýta sér heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikning sinn í evrum. Þetta kom fram í svarbréfi Seðlabanka Íslands til Fréttablaðsins við fyrirspurn um samskipti Straums-Burðaráss og Seðlabankans í tengslum við breytingar þess fyrrnefnda.

Á blaðamannafundi í Seðlabankanum í síðustu viku, þegar tilkynnt var um 25 punkta stýrivaxtahækkun bankans, vísaði Davíð Oddsson seðlabankastjóri í bréf frá Straumi-Burðarási til Seðlabankans þar sem fram komi að í Svíþjóð megi fjármálafyrirtæki gera upp í evrum. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var hvergi vísað til sænskra laga í bréfinu og staðfesti Seðlabankinn það með svarbréfi sínu.

Í svarbréfinu kemur fram að í umsókn Straums-Burðaráss til Seðlabankans, um að hafa sérstakan jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð til varnar gengisáhrifum á eiginfjárhlutfall, standi að bankinn hefði óskað eftir heimild ársreikningaskrár til að færa bókhald og semja ársreikning sinn í evrum. Seðlabankinn hafi veitt heimildina um jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð en um leið varað við því að Straumur-Burðarás nýtti sér heimild ársreikningaskrár.

Seðlabankinn er ekki fylgjandi því að helstu fjármálafyrirtæki landsins geri reikninga sína upp í erlendum gjaldmiðli, samkvæmt bréfinu. Slík umskipti gætu dregið úr virkni innlendra fjármálamarkaða og þar með úr áhrifamætti peningastefnu Seðlabankans. Viðskipti fjármálafyrirtækja við Seðlabanka Íslands séu í íslenskum krónum og ekki sé fyrirsjáanleg nein breyting á því. Þau viðskipti varði meðal annars greiðslumiðlun í landinu, reglubundna útvegun lauss fjár og úrræði við lausafjárvanda.

Bæði Landsbankinn og Glitnir hafa upplýst að ekki séu sérstök áform uppi um að fara sömu leið og Straumur-Burðarás þótt málið sé stöðugt til skoðunar. Kaupþing hefur hins vegar ekki viljað gefa upp fyrirætlanir sínar í þessum efnum. Talsmenn Straums-Burðaráss vildu ekki tjá sig sérstaklega um málið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×