Innlent

Vongóðir um að finna Pétur

Frá leitinni.Sporin sem fundust á laugardag hafa fært leitarmönnum nýja von um að finna Pétur Þorvarðarson.
Frá leitinni.Sporin sem fundust á laugardag hafa fært leitarmönnum nýja von um að finna Pétur Þorvarðarson.

Björgunarsveitir á Austurlandi fundu á laugardag fótspor sem talin eru vera eftir Pétur Þorvarðarson, sautján ára pilt frá Egilsstöðum, sem leitað hefur verið í rúma viku. Leitað er á svæði sem er austan og norðan Þjóðfells. Áætlar svæðisstjórnin á Egilsstöðum að slóðin sé 35-40 kílómetra frá Grímsstöðum á Fjöllum þaðan sem Péturs var upphaflega saknað á aðfaranótt síðasta sunnudags.

Slóðin sem fannst er margir kílómetrar á lengd og fundu leitarmenn einnig tómt gæsahreiður sem álitið að Pétur hafi komið að og jafnvel nýtt eggin sér til matar.

Baldur Pálsson, formaður svæðisstjórnar á Egilsstöðum, segir að slóðin hafi óneitanlega fyllt leitarmenn von um að finna Pétur og þess vegna hafi margir lagt á sig geysilega vinnu við leitina. Baldur segir líkurnar á því að sporin séu eftir einhvern annan en Pétur ákaflega litlar.

"Förin lágu þannig að við getum ekki skilið þau öðruvísi en þarna hafi villtur maður verið á ferð. Greinilegt er að hann þekkir ekki landið miðað við þá stefnu sem hann tók."

Um klukkan sex í gær voru rúmlega fjörutíu manns við leitina á fjórhjólum og bílum. Veðrið var þá ágætt, töluverður vindur og bjart, en leit var hætt tímabundið kvöldið áður vegna veðurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×