Viðskipti innlent

FL færir Glitnisbréf til Hollands Skattaumhverfi hagstætt í Hollandi

FL Group, stærsti hluthafinn í Glitni, hefur fært stærstan hluta af eign sinni í bankanum til tveggja dótturfélaga sem eru með heimilisfang í Hollandi. Af rúmlega þrjátíu prósenta hlut FL í Glitni tekur FL Group Holding Netherlands 12,48 prósent en 13,49 prósent færast til FL GLB Holding. Eftir tilfærsluna heldur móðurfélagið FL Group utan um 4,38 prósent í Glitni en hlutur samstæðunnar er eftir sem áður 30,36 prósent af hlutafé í bankanum.

„Við hugsum þetta aðallega sem hluta af endurskipulagningu fyrirtækisins. Við höfum verið að færa hluta af okkar starfsemi út fyrir landssteinana,“ segir Kristján Kristjánsson, forstöðumaður upplýsingasviðs FL.

Skattaumhverfi er hagstætt í Hollandi. Þar er engin fjármagnstekjuskattur er greiddur af óinnleystum gengishagnaði eins og hérlendis og vegna tvísköttunarsamninga eru tekjurnar ekki skattlagðar á milli landa. Tekjukatthlutfall FL Group ætti því að lækka ef horft er fram á veginn.

Exista er annað félag sem hefur þennan háttinn á að vista hlutabréf í Hollandi undir nafni dótturfélags. Þar liggja hlutir Existu í Bakkavör og Kaupþingi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×