Viðskipti innlent

Sölumet féllu hjá Högum fyrir jólin

Verslað í Hagkaup. Jólaverslun gekk vel í verslunum Haga og var betri en í fyrra sem þó var metár.
Verslað í Hagkaup. Jólaverslun gekk vel í verslunum Haga og var betri en í fyrra sem þó var metár. MYND/Vilhelm

Mikil söluaukning var á matvörum og sérvörum í verslunum Haga, stærsta smásalans á íslenskum verslunarmarkaði, fyrir jólin. Metdagur var í Bónusverslunum á Þorláksmessu og eins var sölumet á einum degi slegið í hinni tíu þúsund fermetra verslun Hagkaupa í Smáralind.

Þá var söluaukning bæði í sérvöruverslunum í Kringlu og Smáralind þar sem Hagar eiga fjölda verslana. Karen Millen opnaði nýja verslun í Smáralind fyrir jólin sem hlaut góðar viðtökur.

„Það sem kemur okkur þægilega á óvart er að verslun er að styrkjast þrátt fyrir aukin ferðalög til útlanda,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Töluverð aukning var á jólaverslun í fyrra samanborið við 2004. Finnur segir að jólaverslunin í ár sé meiri en í fyrra þótt hann nefni engar tölur í þeim efnum.

Finnur segir að Hagkaup í Smáralind velti á Þorláksmessu upphæð sem nemi ársveltu margra verslana í húsinu. Hann nefnir einnig að föstudagurinn 22. desember hafi komið sterkur út í verslunum fyrirtækisins. Hagar veltu 22,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum rekstrarársins sem hófst í mars.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×