Viðskipti erlent

Stork boðar til fundar um vantraust á stjórn

Kjarnastarfsemi Stork N.V. er í flugvélaiðnaði, en sá hluti fyrirtækjasamstæðunnar framleiðir meðal annars fyrir Boeing. Marel hefur hins vegar augastað á matvælavinnsluvélahluta Stork.
Kjarnastarfsemi Stork N.V. er í flugvélaiðnaði, en sá hluti fyrirtækjasamstæðunnar framleiðir meðal annars fyrir Boeing. Marel hefur hins vegar augastað á matvælavinnsluvélahluta Stork. MYND/AFP

Stjórn Stork í Hollandi boðar með harmkvælum sérstakan hluthafafund þar sem efnið er vantraustsyfirlýsing á hana. Tekist er á um stefnu þar sem stærstu hluthafar vilja brjóta upp starfsemina. Marel hefur hug á að kaupa Stork Food Systems.

Stork-fyrirtækjasamstæðan hollenska boðar til sérstaks hluthafafundar í Amsterdam 18. janúar næstkomandi. Fundurinn er boðaður í kjölfar beiðni stærstu hluthafa Stork, bandarísku fjárfestingarsjóðanna Centaurus Capital og Paulson & Co., sem saman fara með um 32 prósenta hlut.

Á fundinum verða bornar upp tvær tillögur sem sjóðirnir lögðu til í bréfi til Stork 23. nóvember síðastliðinn. Fyrri tillagan er vantraustsyfirlýsing á yfirstjórn (supervisory board) Stork. Verði hún samþykkt leiðir hún til þess að stjórnin þurfi að fara frá í heild.

Í hinni er lagt til að sérhver ákvörðun framkvæmdastjórnar Stork (management board) varðandi kaup eða eignastýringu að virði meira en 100 milljónir evra verði tekin til endurskoðunar hluthafa á fundinum.

Deila hluthafanna og stjórnar fyrirtækisins hljóp í algjöran hnút þegar stjórnin neitaði að fara eftir niðurstöðu meirihluta hluthafafundar í október þar sem samþykkt var að skipta samstæðunni upp þannig að Stork einbeitti sér að kjarnastarfsemi, en aðrir hlutar yrðu seldir.

Marel sem með óbeinum hætti ræður yfir átta prósenta hlut í Stork sér mikil tækifæri í sameiningu við matvælavinnsluvélahlutann sem kallast Stork Food Systems. Kjarnastarfsemi Stork er hins vegar í flugvélaiðnaði og stendur sá hluti undir rúmum 60 prósentum starfseminnar.

Í tilkynningu sem Stork sendi út í gær kemur fram að stjórn og stjórnendur telji tillögur sjóðanna „með öllu óréttlætanlegar, ábyrgðarlausar og þjóni ekki hagsmunum fyrirtækisins og hluthafa þess“. Stork segist þess fullvisst að tillögurnar séu til þess fallnar að rýra verðgildi hlutabréfa fyrirtækisins og séu skaðlegar viðskiptahagsmunum þess. „Því er eftir því kallað að hluthafar hafni allir tillögunum.“ Fyrirtækið segist hins vegar nauðbeygt til þess að boða til fundarins fyrst eftir því hafi verið leitað.

„Vantrauststillagan er ekki einvörðungu byggð á óréttmætum og röngum málflutningi, heldur er hún til þess fallin að auka enn á þann óróa sem Stork er nú í með mögulegum alvarlegum afleiðingum fyrir fyrirtækið,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×