Viðskipti innlent

Actavis vill kaupa Antibiotice

Róbert Wessmann forstjóri. 
Actavis hefur áhuga á að kaupa rúmenska lyfjafyrirtækið Antibiotice.
Róbert Wessmann forstjóri. Actavis hefur áhuga á að kaupa rúmenska lyfjafyrirtækið Antibiotice.

Actavis hefur sent rúmensku ríkisstjórninni bréf þess efnis að félagið hafi áhuga á að kaupa 53 prósenta hlut ríkisins í samheitalyfjafyrirtækinu Antibiotice. Fyrirtækið hefur níu prósenta markaðshlutdeild í Rúmeníu. Fyrir hefur Actavis sjö prósenta markaðshlutdeild á rúmenska samheitalyfjamarkaðnum eftir kaup á lyfjafyrirtækinu Sindan í mars síðastliðnum.

Í viðtali við fréttastofuna Bloomberg sagðist forstjóri Actavis, Róbert Wessman, Actavis hafa það að markmiði að verða meðal þriggja stærstu samheitalyfjafyrirtækja heims. Því markmiði hefði félagið náð með yfirtöku á króatíska samheitalyfjafyrirtækinu Pliva, sem reynt var við í haust. Actavis beið hins vegar lægri hlut í þeim slag fyrir bandaríska lyfjarisanum Barr Pharmaceuticals. Í viðtalinu segir Róbert enn stefnt að þessu. Til þess að svo geti orðið verði fleiri smærri lyfjafyrirtæki, á borð við Antibiotice, tekin yfir.

Antiboitice er síðasta ríkisrekna samheitalyfjafyrirtækið í Rúmeníu. Tuttugu og eitt annað fyrirtæki hefur lýst yfir áhuga á kaupum á félaginu. Því er alls óvíst að af kaupunum verði þar sem töluverðar líkur eru á að verðið verði of hátt til að hugnast Actavis. „Við erum ekki fyrir að greiða of hátt verð fyrir fyrirtæki,“ segir Róbert í viðtalinu. „Sýnist mér sem svo að þar verði full mikil þröng á þingi.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×