Viðskipti innlent

Nýjar reglur losa um peninga

Stærri fjármálafyrirtæki kunna að geta losað um töluverða fjármuni í rekstri sínum eftir að um áramót taka gildi nýjar alþjóðlegar reglur um eigið fé fjármálafyrirtækja gildi. Reglurnar byggja á svonefndum Basel II staðli.

Guðrún Jónsdóttir hjá Fjármálaeftirlitinu áréttar að í engu sé slegið af í kröfum til fjármálafyrirtækja. Stærri fjármálafyrirtæki njóta þess hins vegar að vera með öflug áhættustýringartæki og eiga þess kost að koma á svokölluðu „innra matskerfi“ þar sem áhætta er metin í samstarfi við Fjármálaeftirlitið.

„Í raun borgar sig samt ekki nema fyrir stærstu fyrirtæki að taka þetta upp,“ segir Guðrún og bendir á að því fylgi mikil vinna og umfang. Kjósi fyrirtæki að taka upp innra mat tekur svo við þriggja ára aðlögunartími þar sem einungis er heimilt að trappa eigið fé fyrirtækisins niður um ákveðið hlutfall á ári hverju. Eftirlitsferlið sem í staðinn kemur á svo að tryggja að fyrirtækin hafi ávallt nægilegt eigið fé að styðjast við.

„Reglurnar sem við gefum út núna eru frá samtökum bankaeftirlita og snúa í raun að dálítið breyttum eftirlitsháttum,“ segir Guðrún, en þeir byggja í meira mæli á samstarfi fyrirtækjanna og eftirlitanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×