Viðskipti innlent

Landsbankinn sótti 18 milljarða til Kanada

Landsbankinn hefur lokið við 300 milljón kanadadollara skuldabréfaútgáfu í Kanada, eða sem nemur ríflega 18 milljörðum íslenskra króna. Útgáfan er á föstum vöxtum í Kanada á gjalddaga í janúar 2010.

Brynjólfur Helgason, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs, segir kjör bankans í útgáfunni sambærileg við það sem gerist á mörkuðum í Evrópu, en þar hafa lánakjör bankanna hægt og bítandi verið að batna. Ávöxtunarkrafa bréfanna er 4,40 prósent og miðast við álag á kanadísk ríkisskuldabréf. Yfirumsjón með lántökunni var á höndum breska bankans HSBC en aðrir umsjónaraðilar voru CIBC og National Bank of Canada.

Brynjólfur segir útgáfuna hluta af stefnu bankans sem er að fjölga stöðum í erlendri fjármögnun og telur lántökuna staðfesta gott aðgengi bankans að fjármálamörkuðum. „Þetta gekk hratt og vel fyrir sig,“ segir hann og segir bankann í góðri stöðu til að fylgjast með verðþróun á fjármálamörkuðum og grípa þau tækifæri sem gefist. Brynjólfur segir frekari skuldabréfaútgáfu í Kanada vel mögulega. „Fyrsta tilraun gekk að minnsta kosti vel.“

Bankastjórar Landsbankans


.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×