Viðskipti innlent

Mælt með kaupum í Bakkavör

Stjórnarformaður Bakkavarar hefur ástæðu til að brosa Greiningardeild Landsbankans gerir mælir með að fjárfestar kaupi bréf í félaginu.
Stjórnarformaður Bakkavarar hefur ástæðu til að brosa Greiningardeild Landsbankans gerir mælir með að fjárfestar kaupi bréf í félaginu.

Greiningardeild Landsbankans mælir með kaupum á bréfum Bakkavarar og að fjárfestar yfirvogi þau í eignasafni sínu sem taki mið af íslenska hlutabréfamarkaðnum.

Samkvæmt nýju verðmati greiningardeildarinnar er verðmatsgengi félagsins 62,5 og vænt verð eftir tólf mánuði 69,4. Lokagengi félagsins í fyrradag, sem nýja verðmatið miðast við, var 60,4.

Rekstur Bakkavarar þykir hafa gengið vel á árinu og hefur félagið vaxið umfram markaðinn. Á fyrstu níu mánuðum ársins óx markaðurinn fyrir fersk tilbúin matvæli í Bretlandi um 6,4 prósent á meðan sala Bakkavarar jókst um 8,7 prósent. Á markaði með óskorið grænmeti óx sala Bakkavarar nánast tvöfalt meira en markaðurinn.

Sjóðstreymi Bakkavarar hefur jafnframt verið sterkt undanfarin misseri sem félagið hefur nýtt sér til að greiða niður langtímaskuldir. Er því spáð að eiginfjárhlutfall muni verða rúm 19 prósent í árslok 2006 en hlutfallið hefur hækkað úr 12,4 prósentum, frá árslokum 2005, í 16,5 prósent í lok níu mánaða uppgjörs.

Hagnaður Bakkavarar á þriðja ársfjórðungi nam 15 milljónum punda sem samsvarar tveimur milljörðum króna og var umfram væntingar greiningaraðila.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×