Lífið

Grímur bæjarstjóri ræður sér kanslara í Reykjavík

Orri jónsson kynntist Grími í ellefu ára bekk og fannst eðlilegt að rétta honum hjálparhönd.
Orri jónsson kynntist Grími í ellefu ára bekk og fannst eðlilegt að rétta honum hjálparhönd.

Grímur Atlason ætlar ekki að hætta tónleikahaldi þótt hann sé orðinn bæjarstjóri í Bolungarvík. Hann hefur ráðið sér mann til að sjá um Reykjavíkurdeild fyrirtækis síns.

Orri Jónsson, annar helmingur Slowblow, hefur tekið um stjórnartaumana í fyrirtæki Gríms Atlasonar, Austur-Þýskalandi. Tónlistarunnendum leist ekki á blikuna þegar Grímur settist í bæjarstjórastólinn í Bolungarvík, en nú er ljóst að tónleikahald mun ekki leggjast af í fjarveru Gríms.

„Ég er nú ekki að taka við þessu, ég er bara svona „meðplottari“,“ sagði Orri í samtali við Fréttablaðið. „Við Grímur erum gamlir vinir. Þegar hann hefur sett upp tónleika hér og ég verið á landinu hef ég hjálpað til hvort sem er. Hann var ekki alveg tilbúinn að sleppa hendinni af tónleikabransanum þegar hann flutti vestur, svo hann plataði mig til að vera Reykjavíkurdeildin,“ sagði hann. „Austur-Þýskaland er enn þá hans fyrirtæki, þó það ætti nú að kalla það Vestur-Þýskaland. Ætli ég sé ekki orðinn kanslari,“ sagði Orri, en hann sá meðal annars um tónleika Jonathans Richman í október. „Á döfinni hjá okkur er Sufjan Stevens sautjánda og átjánda nóvember. Svo stendur til að Joanna Newsom komi aftur,“ sagði Orri.

Aðspurður sagðist Grímur ekki ætla að draga sig alfarið út úr tónleikahaldi. „Ég sinni ákveðnum þáttum og hef viss sambönd, en við höfum ekki gert neitt skipurit enn þá.“ Hann segir það hafa legið beint við að Orri hlypi undir bagga með honum. „Það þarf að halda þessu áfram fyrst Sena hefur keypt annan hvern tónleikahaldara til sín. Annars má Orri fá Austur-Þýskaland á 40 milljónir, er það ekki gangverðið?“ sagði Grímur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.