Viðskipti innlent

SA segja gengishækkanir hlutabréfa í útlöndum í fyrra draga úr hallanum

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA Samtök atvinnulífsins telja að ójafnvægi í utanríkisviðskiptum sé minna en opinberar tölur gefa til kynna.
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA Samtök atvinnulífsins telja að ójafnvægi í utanríkisviðskiptum sé minna en opinberar tölur gefa til kynna.

Samtök atvinnulífsins telja að raunverulegt ójafnvægi í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar sé minna en opinberar hagtölur gefa til kynna.

Á síðasta ári samanstóð viðskiptahallinn af 93 milljarða vöruskiptahalla, 31 milljarða halla á þjónustujöfnuði og 37 milljarða halla á jöfnuði þáttatekna. Síðastnefndi liðurinn hefur vaxið mikið undanfarin ár, vegna mikillar erlendrar lántöku og fjárfestinga erlendis. Undir hann flokkast fjármagnsgjöld og fjármagnstekjur frá útlöndum.

Tekjur af erlendum eignum námu 85 milljörðum króna á árinu 2005. Þær skiptust þannig að ávöxtun hlutafjár nam 64 milljörðum og tekjur af öðrum eignum 21 milljarðar. Sett í samhengi við meðalstöðu eigna á árinu 2005 fæst að ávöxtun var aðeins 4,7 prósent, sem er heldur lágt í ljósi þeirrar velgengni og mikla hagnaðar sem var af starfsemi útrásarfyrirtækjanna á síðasta ári.

SA segja að ein skýringin á þessari lágu ávöxtun sé að vegna varfærinna uppgjörsaðferða myndar stór hluti þessara eigna mjög litlar tekjur í greiðslujöfnuði. Ef þáttatekjurnar væru skilgreindar þannig að gengishækkun hlutabréfa og hlutabréfasjóða væri talin til tekna í uppgjörinu, og af varfærini gert ráð fyrir 10 prósenta hækkun erlendra hlutabréfa í eigu Íslendinga, þá hefði viðskiptahallinn ekki talist vera 160 milljarðar króna í fyrra heldur 100 milljarðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×