Viðskipti innlent

Exista byrjar vel

Afkoma Existu var nokkuð fyrir ofan spár Glitnis og Landsbankans fyrir þriðja ársfjórðung en félagið skilaði þá 27,6 milljarða hagnaði.

Þar sem Exista tapaði peningum á fyrri hluta ársins nemur hagnaður fyrirtækisins 24,3 milljörðum fyrir árið í heild.

Arðsemi eigin fjár var 25 prósent á ársgrundvelli.

Exista er fjármálaþjónustufyritæki og fær tekjur af fjárfestingastarfsemi og rekstrarstarfsemi. Miklar fjárfestingatekjur féllu til á þriðja ársfjórðungi einkum vegna gengishagnaðar af skráðum eignarhlutum félagsins, til dæmis í Bakkavör og Kaupþingi.

Styrking krónunnar á tímabilinu skilaði einnig gengishagnaði upp á 1,8 milljarða króna.

Alls voru tekjur Existu 33,6 milljarðar á ársfjórðungnum en kostnaður 4,7 milljarðar.

Veigamikill þáttur í rekstrarstarfseminni er trygginga- og eignaleigurekstur. VÍS skilaði rúmum þremur milljörðum í hagnað á fyrstu níu mánuðunum og Lýsing um 761 milljón króna á sama tíma.

Eignir samstæðunnar námu 374 milljörðum króna í lok september og höfðu aukist um 131 prósent frá áramótum. Eigið fé var rúmur 171 milljarður króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×