Skoðun

Ingibjörg Sólrún - líttu þér nær

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur miklar áhyggjur af okkur konunum í Sjálfstæðisflokknum í kjölfar prófkjörs flokksins í Reykjavík. Í Fréttablaðinu í fyrradag (30. október) segir hún að hún telji hlut kvenna vera rýran og að „ekki sé hægt að sjá það öðruvísi en að flokksmenn leggi litla áherslu á jafnréttismál". Það er nefnilega það.

Fréttablaðið náði hins vegar ekki að spyrja formanninn um álit hennar á niðurstöðunni úr prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi sem einnig fór fram um helgina, en endanleg niðurstaða var ekki komin áður en blaðið fór í prentun. Samkvæmt útleggingum formanns Samfylkingarinnar hafa samfylkingarmenn nefnilega ekki áhuga á jafnréttismálum frekar en sjálfstæðismenn. Samfylkingarmenn höfnuðu konum þar sem flokksmenn völdu karla í fyrstu tvö sætin og aðeins eina konu meðal efstu fjögurra. „Það er ekki hægt að segja að ekki hafi verið góðra kvenna völ" sagði Ingibjörg Sólrún um prófkjör sjálfstæðismanna og á það að hennar mati eflaust líka við hjá Samfylkingunni í Norðvesturkjördæmi.

Ég vona að formaður Samfylkingarinnar sjái hversu lítið hald er í fréttaskýringu hennar þegar hún er yfirfærð á hennar eigin flokk. Ég sem kona í Sjálfstæðisflokknum og stoltur frambjóðandi í prófkjöri flokksins í Suðvesturkjördæmi vil biðja formann Samfylkingarinnar að láta af þeim leiða ósið að vera sífellt að tala niður til okkar sjálfstæðiskvenna. Við, eins og karlar í Sjálfstæðisflokknum, bjóðum okkur fram á okkar eigin forsendum og viljum að við séum metnar útfrá hæfileikum okkar og stefnumálum en ekki kynferði. Við göngum til prófkjörs hér í kjördæminu þann 11. nóvember og þar bjóða sig fram 11 einstaklingar, karlar og konur. Við treystum kjósendum til að velja sigurstranglegan lista - það á formaður Samfylkingarinnar greinilega erfitt með.

Höfundur er aðstoðarmaður forsætisráðherra.




Skoðun

Sjá meira


×