Lífið

Herinn, beinin og skáldskapurinn

Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur ræðir um bein Jónasar í samhengi við Atómstöðina.
Jón Karl Helgason bókmenntafræðingur ræðir um bein Jónasar í samhengi við Atómstöðina.

Bókmenntafræðingurinn Jón Karl Helgason ræðir við gesti Gljúfrasteins um Atómstöðina í dag kl. 16. Atómstöðin er verk mánaðarins í húsi skáldsins og gefst lesendum þess nú kostur á að kíkja við í stofunnni og spjalla um verkið. Yfirskrift dagsins er "Atómstöðin: her og bein" en Jón Karl mun ræða um örlög beina Jónasar Hallgrímssonar í skáldskap og veruleika í tengslum við verkið.

Bein þessi blönduðust óvænt í deiluna um Keflavíkursamninginn þar sem þau komu til landsins frá Danmörku þegar umræður um veru hersins hér á landi stóðu sem hæst á Alþingi en þá urðu jarðneskar leifar skáldsins að bitbeini stjórnmálaafla.

Atómstöðin fjallar öðrum þræði um þessi tvö viðkvæmu samtímamál, Keflavíkursamninginn og beinamálið. Í bókinni er látið að því liggja að beinin hafi verið flutt til Íslands í þeim tilgangi að leiða athygli almennings frá samningaviðræðum ríkisstjórnarinnar við Bandaríkjamenn. Lýsing Halldórs á innihaldi kistunnar sem geymdi jarðneskar leifar þjóðskáldsins fer glettilega nærri lýsingu Matthíasar Þórðarsonar þjóðminjavarðar á innihaldi kistunnar sem grafin var í þjóðargrafreitnum haustið 1946.

Allir eru velkomnir á meðan húsrúm leyfir en þess skal getið að Brekkukotsannáll verður verk októbermánaðar á Gljúfrasteini.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.