Skoðun

Áskorun til félagsmálaráðherra

Jóhanna sigurðardóttir skrifar
Það er ólíðandi að deilur milli ríkis og sveitarfélaga bitni með fullum þunga á 370 fötluðum grunnskólabörnum og foreldrum þeirra eins og fram hefur komið í Fréttablaðinu. Ekki er deilt um hvort þörfin sé fyrir hendi, heldur um hvort það sé hlutverk ríkis eða sveitarfélaga að veita þessa þjónustu og síðan hvað hún kostar. Um er að ræða lengda viðveru í grunnskólum hjá fötluðum börnum 10-16 ára. Ágreiningurinn snýst um hvort lengd viðvera falli undir lög um málefni fatlaðra eða almenna þjónustu sveitar­félaga við grunnskólabörn. Svo virðist að komin sé upp algjör pattstaða.

Það gengur hreinlega ekki, því á meðan líða 370 fatlaðir einstaklingar, foreldrar þeirra og aðstandendur, sem þurfa jafnvel að minnka við sig vinnu vegna þessara kerfisdeilna. Við þessar aðstæður er það skylda félagsmálaráðherra að höggva á þennan hnút. Skora ég á félagsmálaráðherra að leysa málið tafarlaust.

Ef lagaákvæði eru óljós á strax að breyta þeim. Ríki og sveitarfélög greinir líka á um útgjöldin vegna þessarar þjónustu sem ríki metur á rúmlega 100 milljónir en sveitarfélög nær 200 milljónum. Ríkið vill setja hámark á greiðslurnar og greiða einungis samanlagt 50-55 milljónir og inni í því er 45 milljón kr. kostnaður sem nú þegar er greiddur vegna lengdrar viðveru fatlaðra barna á sjálfseignarstofnunum sem hagsmunasamtök fatlaðra reka eins og Lyngás. Ríkið virðist því einungis tilbúið að leggja til 10 milljónir af heildarkostnaði á bilinu 100-200 milljónir sem lengd viðvera 10-16 ára fatlaðra barna kostar. Félagsmálaráðherra verður að fá óvilhalla aðila til að meta með hlutlausum hætti raunverulegan kostnað við þessa þjónustu. Þeim kostnaði á að skipta refjalaust og án allra undanbragða milli ríkis og sveitarfélaga þar til Alþingi hefur með lögum kveðið skýrt á um hvort ríki eða sveitarfélaga eða þau sameiginlega eiga að reka og kosta þessa þjónustu. Málið verður tekið fyrir nú í upphafi þings hafi félagsmálaráðherra ekki orðið við þessari áskorun.

 




Skoðun

Sjá meira


×