Skoðun

Uppreist æru og tilgangur refsivistar

Það var á björtum miðvikudagsmorgni sem undirritaður sat á skólabekk í Háskólanum í Reykjavík. Annað augað fylgdi kennaranum, hitt hafði meiri áhuga á því nýjasta sem fréttavefir landsins höfðu að segja. Stórfrétt dagsins var án efa sú að handhafar forsetavalds, í fjarveru forseta Íslands, höfðu undirritað skjal þess efnis að veita Árna Johnsen fyrrverandi alþingismanni uppreist æru, að beiðni Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra. Uppreist æru

Orðmyndin uppreist æru kann að hafa komið einhverjum spánskt fyrir sjónir, en finna má hugtakið í lögum um kosningar til Alþingis. Hefur uppreist sömu merkingu og uppreisn. Í kjölfar tíðindanna er því tilvalið tækifæri að fjalla nánar um það í stuttu máli hvað felst í því að hljóta uppreist æru.

Það að hljóta uppreist æru felur í sér að fá aftur að njóta þeirra réttinda sem glötuðust í kjölfar þess að einstaklingur hefur setið af sér dóm. Nú reka eflaust margir upp stór augu og spyrja, hvort einstaklingur sé ekki búinn að greiða skuld sína við þjóðfélagið með afplánun dóms, og njóti því aftur fullra réttinda? Svo er ekki. Þetta má glögglega sjá í lögum um kosningar til Alþingis. Kemur þar fram að kjörgengi við kosningar til Alþingis njóti hver sá sem er íslenskur ríkisborgari og náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á lögheimili hér á landi. Síðast en ekki síst er svo tekið fram að krafa sé gerð um óflekkað mannorð.

En hvað felst í því að hafa flekkað mannorð? Skilgreiningu hugtaksins "flekkað mannorð" má einnig finna í lögum um kosningar til Alþingis. Kemur þar fram að enginn teljist hafa óflekkað mannorð sem er sekur eftir dómi um verk sem er svívirðilegt að almenningsáliti, nema hann hafi fengið uppreist æru sinnar. Tekið er þó fram að dómur valdi ekki flekkun mannorðs, nema sakborningur hafi verið fullra 18 ára að aldri er hann framdi brotið og refsing sé fjögurra mánaða fangelsi óskilorðsbundið hið minnsta eða öryggisgæsla sé dæmd.

Í almennum hegningarlögum má finna ákvæði er fjalla um lausn undan flekkuðu mannorði. Kemur þar skýrt fram að sé um fyrsta dóm að ræða og refsing fari ekki fram úr 1 árs fangelsi, fær viðkomandi að liðnum 5 árum frá því að refsingu var lokið, til baka öll þau réttindi sem fást með uppreist á æru, að uppfylltum vissum skilyrðum. Einnig má finna heimildarákvæði þess efnis er kveður á um það, að séu þegar liðin 2 ár af þeim 5 getur forseti veitt hinum dómfellda uppreist æru, hafi hann hegðað sér vel og falist eftir því.

Árni Johnsen

Á grundvelli ofangreinds ákvæðis undirrituðu handhafar forsetavalds skjal þess efnis að veita skuli Árna Johnsen uppreist æru. Það er engum vafa undirorpið að alþingismaðurinn Árni Johnsen er umdeildur, enda ekki í fyrsta sinn sem hann er bitbein eða þrætuepli þjóðfélagsumræðunnar. Það er þó enginn vafi á því að fáir alþingismenn hafa unnið eins ötullega að málefnum Vestmannaeyinga. Í ljósi þess má færa rök fyrir því að hinn fyrrverandi alþingismaður eigi fullt erindi aftur inn á Alþingi Íslendinga. Mætti segja að Árni Johnsen sé það besta sem hent hefur eyjabúa síðan símastrengurinn var lagður til Vestmannaeyja árið 1911 frá Landeyjasandi. Hann vill raunar gera gott betur en það. Hann vill göng.

Ætti það ekki að vera réttur þeirra sem búsettir eru í Suðurkjördæmi að ráða því hvaða fulltrúa þeir senda á Alþingi?

Einnig má setja fram þá spurningu hvort tækt sé að gerðar séu strangari kröfur til kjörgengis við kosningar til Alþingis en gerðar eru til kjörgengis forseta Íslands, æðsta embættis ríkisins. Í 4. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands er fjallað um kjörgengi til forseta. Kemur þar hvergi fram að gerðar séu kröfur um óflekkað mannorð.

Tilgangur refsivistar

Samkvæmt stefnu og markmiðum Fangelsismálastofnunar ríkisins kemur skýrt fram að tilgangur með rekstri fangelsa er að fullnusta refsidóma samkvæmt efni þeirra, þannig að dæmdir menn taki út þá refsingu sem þeim hefur verið ákvörðuð í dómi. Er því meginmarkmiðið: "Að afplánun fari fram með öruggum hætti þannig að réttaröryggi almennings sé tryggt og tilætluð sérstök og almenn varnaðaráhrif fangelsisvistarinnar séu virt."

Að mati höfundar eru fyrrgreind meginmarkmið af hinu góða, en þykir þarft að benda á að meginmarkmiðin hljóta einnig að vera þau, að afplánun skuli vera föngum til góða. Er það ástæða þess að talað er um "betrunarvist".

Ætti afplánun að vera samspil skyldu og hvatningar. Fangi greiðir skuld sína gagnvart þjóðfélaginu og hvatning hans væri sú að gerast betri einstaklingur, skuldlaus gagnvart þjóðfélaginu. Með það að leiðarljósi ætti tilgangi refsingar að stórum hluta að vera náð út frá þjóðfélagslegu sjónarmiði. Hvaða hvatning felst í því að afplána refsingu, verði viðkomandi ekki skuldlaus gagnvart þjóðfélaginu?

Í ljósi þessa mætti spyrja hvort ekki sé bæði eðlilegt og sanngjarnt að einstaklingur sem tekið hefur út sína refsingu, ætti að eiga jafnan rétt og við hin, í hinu daglega lífi? Svari hver fyrir sig.

Höfundur er nemandi Háskólans í Reykjavík.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×