Lífið

Madonna léleg í Danmörku

Krossfestingin fór ekki fyrir brjóstið á dönskum áhorfendum enda sagði Politiken að réttast hefði verið að endurgreiða miðana vegna slakrar frammistöðu poppdívunnar.
Krossfestingin fór ekki fyrir brjóstið á dönskum áhorfendum enda sagði Politiken að réttast hefði verið að endurgreiða miðana vegna slakrar frammistöðu poppdívunnar. MYND/Getty

Tónleikaferð poppdívunnar Madonnu hefur verið mikið til umfjöllunar í erlendum fjölmiðlum enda gengst poppdrottningin upp í því að hneyskla viðstadda. Frændur okkar Danir voru ekki par hrifnir af frammistöðu hennar.

Tónlistargagnrýnendur danskra fjölmiðla létu gamminn geysa í gær eftir tónleika Madonnu í Horsens á Jótlandi. Eru þeir sammála um að frammistaða hennar hafi valdið vonbrigðum og eins fá tónleikaskipuleggjendur skömm í hattinn því lítill hluti tónleikagesta á að hafa séð almennilega uppá svið. Hljóðkerfið var ekki uppá marga fiska og því yfirgnæfðu harmakvein pirraðra tónleikagesta tónlistina. Fá tónleikanir aðeins eitt hjarta af sex í gagnrýni Politiken og segir þar að réttast væri að endurgreiða miðana líkt og gert er í bíó þegar filman bilar en miðarnir kostuðu 700 danskar krónur.

Ekstrablaðið segir tónleikana hafa verið hneyksli og segist finna til með Rolling Stones sem þurfi að standa á þessu sama sviði í næstu viku. Samúðin sé þó enn meiri með aðdáendum hljómsveitarinnar sem þurfi að sætta sig við svo slæman aðbúnað. Blaðamaður Berlingske tidende er ögn jákvæðari og gefur sviðinu sjálfu fullt hús en söngkonunni aðeins tvær. Segir hann tónleikana hafa minnt á leiksýningu þar sem allt er þaulæft og engin leið að fara út fyrir handritið. Eins hafi predikun hennar um trúarbrögð og stjórnmál misst marks.

En veitingamenn og búðareigendur í Horsens eru vafalítið sáttir við sitt enda ruku Madonnuréttirnir, brauðin og kokteilanir út fyrir tónleikana. Þó frammistaða söngkonunnar hafi sennilega spillt fyrir sölunni eftir þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.