Lífið

Vetrarfríi Populus tremula lokið

Akureyrarvaka í listagilinu Populus tremula er til húsa í kjallara Listasafns Akureyrar og verður með fjölbreytta dagskrá á Akureyrarvöku.
Akureyrarvaka í listagilinu Populus tremula er til húsa í kjallara Listasafns Akureyrar og verður með fjölbreytta dagskrá á Akureyrarvöku.

Vetrarstarf Menningarsmiðjunnar Populus tremula hefst á Akureyrarvöku á morgun. Starfið í vetur, þann þriðja sem smiðjan er opin, mun að venju vera sambland af tónlist, myndlist, bókmenntum og jafnvel leiklist, en Populus tremula er til húsa í kjallaranum á Listasafni Akureyrar.

"Við höfum sett okkur það að byrja á Akureyrarvökunni og þegar kemur fram í mánaðamót maí/júní þá lokum við bara og leyfum Listasumri að eiga sumarið," segir Sigurður Heiðar Jónsson einn meðlima menningarsmiðjunnar. Populus tremula er áhugamannafélag og hagnaðarsjónarmið ráða þar ekki för. Félagið býður gestum og listamönnum að sýna sig og sjá aðra án þess að greiða fyrir það. "Þetta er félagsskapur nokkurra manna, áhugamanna um menningu og listir, sem allir hafa verið viðloðandi þetta gil í mörg ár," segir Sigurður.

Dagskráin á morgun er fjölbreytt, en þar er bæði boðið upp á myndlist og tónlist. "Við byrjum klukkan fjórtán með myndlistarsýningu Kristjáns Steingríms sem er opin frá 14 til 17. Síðan stendur hún bara út helgina því allar sýningarnar okkar eru helgarsýningar." Tvennir tónleikar eru svo klukkan 21.30 og 23.30. "Dean ­Ferr­ell verður með tónleika í svona rúman klukkutíma. Þá gerum við smá hlé til að taka til áður en Baldvin Ringsted, sem kallar sig Bela, hefur sína tónleika."

Veturinn verður líflegur eins og vera ber hjá Populus tremula. "Þetta er bara upphafsverkefnið. Dagskráin fyrir veturinn er að öðru leyti ekki komin saman en það er komið fullt á blað sem eftir er að dagsetja," segir Sigurður Heiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.