Lífið

Vélmenni í vegamynd

Góðir gestir á kvikmyndahátíð. Daft Punk spreyta sig í kvikmyndalistinni.
Góðir gestir á kvikmyndahátíð. Daft Punk spreyta sig í kvikmyndalistinni.

Frakkinn Thomas Bangalter, annar meðlima danshljómsveitarinnar Daft Punk, verður gestur Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík í haust. Mun hann svara spurningum áhorfenda við frumsýningu kvikmyndarinnar Electroma auk þess að þeyta skífum á skemmtistaðnum Nasa.

Bangalter gerði myndina Electroma í félagi við hinn helming dansdúósins, Guy-Manuel de Homem-Christo, en myndinni er lýst sem afbrigði af vegamynd um tvö vélmenni sem þrá að verða mennsk. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí við góðar undirtektir.

Hljómsveitin Daft Punk er íslenskum hlustendum að góðu kunn því ófáir hafa dillað sér duglega við smelli á borð við „Around the World" og „One more Time".

Thomas Bangalter hefur einnig gert tónlist einn síns liðs og er lagið „Music Sounds Better With You", sem hann samdi undir nafninu Stardust, líklega þekktast þeirra. Í tilefni af heimsókninni ætlar Bangalter að smella sér í dansgallann í október en hann hefur ekki komið fram sem plötusnúður í tæpan áratug og segir í fréttatilkynningu frá Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni að því sé um stórviðburð að ræða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.