Lífið

Lífleg ljóðahandbók

Leikarinn og rithöfundurinn Stephen Fry leggur línurnar fyrir skáldin.
Leikarinn og rithöfundurinn Stephen Fry leggur línurnar fyrir skáldin.

Breski leikarinn og háðfuglinn Stephen Fry leggur lag sitt við fleiri en eina listgyðju því hann er liðtækur penni með mikinn ljóðaáhuga. Fry hefur þegar gefið út nokkrar skáldsögur og sjálfsævisögu en á dögunum kom út bókin The Ode Less Travelled: Unlocking the Poet Within sem er nokkurs konar ljóðahandbók sem Fry hefur tekið saman.

Í nýlegum dómi í dagblaðinu The New York Times er Fry hampað fyrir framtakið og einkum þá ástríðu sem hann hefur augljóslega fyrir bragarháttum og formi en í bókinni leggur hann áherslu á að öll skáld, hvort sem þau yrkja í hefðbundnum eða óhefðbundum anda, þurfi að kunna skil á þeim reglum og lögmálum.

Fry kveðst einungis leikmaður í ljóðagerðinni og undirstrikar það til dæmis með því að taka engin dæmi af sínum eigin skrifum í bókinni heldur vitnar hann einvörðungu til viðurkenndra meistara. Hann fær nokkrar ákúrur fyrir það meinta hugleysi sitt í gagnrýni um bókina og er þessum hæverska ljóða­unnanda líka legið á hálsi að ná ekki fyllilega að gera grein fyrir ást sinni á orðum og ljóðum þrátt fyrir ítrekuð spakleg ummæli um efnið.

Í heildina litið fær bókin þó jákvæða gagnrýni sem hugsjónaverk hagmælts manns og verðugt framlag til ljóðlistarinnar almennt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.