Lífið

Meiri kraftur og aukinn uppreisnarandi

Hafþór Yngvason, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur rýmir fyrir nýjum stefnum og straumum í Hafnarhúsinu.
Hafþór Yngvason, forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur rýmir fyrir nýjum stefnum og straumum í Hafnarhúsinu. MYND/Vilhelm

Tæpt ár er liðið síðan Hafþór Yngvason tók við lyklavöldum í Listasafni Reykjavíkur en eins og sagt er fylgja nýir siðir nýjum herrum og nú boðar safnið stefnubreytingar.

Hafþór er forstöðumaður Listasafns Reykjavíkur sem hefur starfsemi í þremur húsum, í Hafnarhúsi við Tryggvagötu, á Kjarvalsstöðum og í Ásmundarsafni við Sigtún en hann útskýrir að breytingarnar feli meðal annars í sér aukna aðgreiningu milli starfsemi húsanna. „Í Hafnarhúsinu verður stefnt að því að kynna nýjustu strauma og stefnur í myndlist og því verður húsið opnað til dæmis fyrir ungu fólki og öðrum þeim sem eru að gera tilraunir með ný tjáningarform í list sinni," segir Hafþór.

Um næstu helgi opnar þar sýning sem markar upphaf þessarar áherslubreytingar. Á sýningunni „Pakkhús postulanna" sýna ellefu listamenn innsetningar og gjörninga en allir eru þeir fæddir eftir 1968. Titillinn vísar til samnefndra reifkvölda sem haldin voru á níunda áratugnum en markmiðið með sýningunni er að ná fram þeim uppreisnaranda og krafti sem einkenndi þann tíma - og ganga um leið þvert á viðteknar venjur í starfsemi safnsins. Sýningarstjórarnir Daníel Karl Björnsson og Huginn Þór Arason eru fremur ungir að árum miðað við marga þá sem unnið hafa slík störf fyrir Listasafn Reykjavíkur undanfarin ár en Hafþór bendir á að það hafi verið lykilatriði þegar kom að því að setja saman sýninguna. Þeir hafi nauðsynlega yfirsýn og tengsl við tíðarandann sem safnið vill fanga og því hafi þeir valið listamenn á sýninguna. Vegleg sýningarskrá mun einnig koma út í tengslum við sýninguna. „Hún verður þó meira í ætt við samtalsbók en eiginlega sýningarskrá," segir Hafþór enda er henni ætlað að vekja frekari umræðu um málefni listarinnar.

Að fyrrgreindri sýningu lokinni segir Hafþór að önnur tímamótasýning verði sett upp í Hafnarhúsinu en hún ber yfirskriftina „Uncertain States of America". „Þar sýna ungir bandarískir myndlistarmenn það sem efst er á baugi þar í landi," segir Hafþór en tildrög þeirrar sýningar má rekja til Gunnars Kvaran, safnstjóra samtímalistasafnsins Astrup Fearnley í Ósló, og samstarfs hans við tvo af fremstu sýningarstjórum Evrópu, Daniel Birnbaum og Hans Obrist, sem ferðuðust um Bandaríkin í tvö ár og söfnuðu upplýsingum um nálega þúsund listamenn fædda eftir 1970. Sýningin birtir síðan afrakstur þeirrar vinnu og fangar þær hræringar sem eiga sér stað hjá myndlistarfólki í Bandaríkjunum.

Hafþór segir að á Kjarvalsstöðum verði einnig breytinga að vænta því þar verði nú lögð frekari áhersla á málverkið. „Það eru mjög spennandi hlutir að gerast í málverkinu," áréttar hann. Hin fyrsta verður sýning á málverkum ungrar listakonu, Þórdísar Aðalsteinsdóttur, sem hefur getið sér gott orð á erlendri grund fyrir einföld en harla óvenjuleg verk sín en sýning hennar verður opnið í lok september. Aukinheldur verður einnig sett upp hönnunarsýning á Kjarvalsstöðum á komandi vetri.

Hlutverk Ásmundarsafn helst að mestu óbreytt að sögn Hafþórs. „Þar verða áfram sýningar á verkum hans og sem fyrr verður listamönnum boðið að sýna í salnum en þær sýningar hafa jafnan kallast á við verk Ásmundar."

Nánari upplýsingar um sýningarhald vetrarins er að finna á heimasíðu safnins, http://listasafnreykjavikur.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.