Lífið

Börn þekktustu leikstjóra landsins saman í bíómynd

Leikstjórabörnin á æfingu. Frá vinstri eru Ugla Egilsdóttir, Hera Hilmarsdóttir, Gunnur Martinsdóttir Schlüter, Jörundur Ragnarsson, Guðný Halldórsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Arnmundur Ernst Björnsson, Baltasar Breki Baltasarsson, Tinna Hrafnsdóttir og Hilmir Snær Guðnason, sem er kominn með myndarlegt hippaskegg fyrir myndina.
Leikstjórabörnin á æfingu. Frá vinstri eru Ugla Egilsdóttir, Hera Hilmarsdóttir, Gunnur Martinsdóttir Schlüter, Jörundur Ragnarsson, Guðný Halldórsdóttir, Atli Rafn Sigurðarson, Arnmundur Ernst Björnsson, Baltasar Breki Baltasarsson, Tinna Hrafnsdóttir og Hilmir Snær Guðnason, sem er kominn með myndarlegt hippaskegg fyrir myndina. MYND/Vilhelm

"Það varð nú óvart þannig að öll þessi leikstjórabörn verða í myndinni. Þegar ég var að leita að leikurum í vetur fór ég á menntaskólasýningarnar og þá voru þessir krakkar þau sem stóðu upp úr," segir kvikmyndaleikstjórinn Guðný Halldórsdóttir. Tökur á nýrri mynd hennar, Veðramótum, hefjast í vikunni og svo skemmtilega vill til að hún hefur safnað saman í leikhópinn börnum flestra þekktustu kvikmyndaleikstjóra landsins.

Þekktustu nöfnin í leikhópnum eru þeir Hilmir Snær Guðnason og Atli Rafn Sigurðarson en með önnur stór hlutverk fara börn flestra þekktustu kvikmyndaleikstjóra landsins. Þau eru Tinna Hrafnsdóttir, dóttir Hrafns Gunnlaugssonar, Gunnur Martinsdóttir Schlüter, dóttir Ásdísar Thoroddsen, Hera Hilmarsdóttir, dóttir Hilmars Oddssonar, Baltasar Breki, sonur Baltasars Kormáks, og Arnmundur Ernst Björnsson, sonur Eddu Heiðrúnar Backman.

"Þetta eru allt börn leikstjóra, börn vina minna. Sum þeirra hef ég ekki séð síðan þau voru oggulítil og hafði því ekki hugmynd um að þau væru komin út í leiklistina. En það virðist sem þau séu öll með brennandi áhuga og hafa mörg skipað stóran sess í þeim leikfélögum sem þau hafa verið í. Sum krakkanna hafa svo leikið hjá mér áður," segir Guðný.

"Þetta er náttúrlega spennusaga eins og mikið er í tísku núna. Ég tolli í tískunni," segir Guðný þegar hún er spurð út í nýju myndina. Veðramót fjallar um heimili fyrir vandræðaunglinga norður í landi árið 1974. Sagan gerist í nútímanum en brugðið er upp svipmyndum frá 1974 "þegar hippamennskan var við lýði," eins og Guðný orðar það. "Það er ungt fólk sem tekur við þessu vandræðaheimili og það innleiðir nýjar uppeldisaðferðir. Ég myndi halda að óhætt sé að segja að þar gangi á ýmsu," segir Guðný.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.