Lífið

Með 150 manns í starfi

hlynur sigurðsson Hlynur hefur störf sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar þann fyrsta september næstkomandi.
hlynur sigurðsson Hlynur hefur störf sem framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar þann fyrsta september næstkomandi. Mynd/Ellert Grétarsson

Hlynur Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar ehf. og tekur við starfinu þann fyrsta september næstkomandi.

Hlynur lauk meistaraprófi í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg árið 2002 og segir hann að námið þar hafi nýst sér mjög vel hér á landi. Hann hóf störf sem innkaupastjóri Fríhafnarinnar árið 2003 þar sem hann hefur verið allar götur síðan.

"Þetta leggst mjög vel í mig," segir Hlynur og viðurkennir að nýja starfið sé ansi umfangsmikið. "Við erum með 150 manns í starfi og það þarf að halda utan um það og sömuleiðis söluna. Svo er annað sem er á þessum framkvæmdatímum, en það breytingarnar á búðunum sem mun taka töluverðan tíma frá öðru," segir hann og á þar við stækkun brottfararverslunarinnar og breytingu og flutning komuverslunarinnar.

Hvað varðar áhugamál nefnir Hlynur golfið til sögunnar. "Það er að verða áhugamál þó svo að tíminn sé vandamálið. Vinnan hefur fyrst og fremst verið í forgrunni undanfarin þrjú ár." Vonast hann til þess að golfið eigi eftir að koma sterkt inn á næstu árum.

Auk þess að starfa sem innkaupastjóri hjá Fríhöfninni hefur Hlynur hefur starfað undanfarin tvö ár sem afleysingakennari í stjórnun og rekstri fyrirtækja við Meistaraskólann í Reykjavík. Mun hann láta af því starfi fyrir þessa önn og einbeita sér að nýju framkvæmdastjórastöðunni.

Hlynur, sem er 33 ára að aldri og býr í Hafnarfirði, er ættaður úr Hörgárdal fyrir norðan Akureyri. Hann er kvæntur Helgu Völu Gunnarsdóttur félagsfræðingi og eiga þau þrjú börn.

Sturla Eðvarðsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar undanfarin fjögur ár, hefur ráðið sig til starfa sem framkvæmdastjóri Samkaupa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.