Lífið

Fólk má flissa upp úr ljóðabókinni

Heiður að vera með í Nýhil Grínistinn og ljóðskáldið Þorsteinn Guðmundsson er á heimavelli þegar kemur að gríni og uppistandi og því kemur ekki á óvart að ljóðin úr nýrri ljóðabók hans, Barkakýli úr tré, eru ekki langt frá uppistandi og gríni.
Heiður að vera með í Nýhil Grínistinn og ljóðskáldið Þorsteinn Guðmundsson er á heimavelli þegar kemur að gríni og uppistandi og því kemur ekki á óvart að ljóðin úr nýrri ljóðabók hans, Barkakýli úr tré, eru ekki langt frá uppistandi og gríni. MYND/GVA

Skáldið og grínistinn Þorsteinn Guðmundsson hefur gefið út nýja ljóðabók sem gæti allt eins kallast brandarabók eða nótnabók uppistandara.

"Þetta er bara svona hugarflug einmana manns í Þingholtunum. Ég skrifa um það sem ber fyrir augu og gerist í lífi fertugs manns," segir Þorsteinn Guðmundsson um nýju ljóðabókina, Barkakýli úr tré. Umfjöllunarefni bókarinnar er því að miklu leyti daglegt líf og skrítnar hugdettur og segir Þorsteinn að þau ættu því að vera auðveld aflestrar og eiga við marga. "Ljóðin eru að minnsta kosti afskaplega einföld á yfirborðinu, enda eru nokkur ljóðanna það sem margir myndu bara kalla setningar. Ég ætlaði fyrst að kalla þetta ljóð og fyrirsagnir, því sum ljóðanna minna á fyrirsagnir í blöðum eða fyrirsagnir í auglýsingum. Þetta er því bara stutt og laggott," segir Þorsteinn og hlær.

Þorsteinn er enginn nýgræðingur í skáldskapnum þótt margir þekki helst til hans sem leikara og uppistandara. "Ég byrjaði að skrifa út úr hallæri þegar ég var atvinnulaus leikari. Þá fór ég að skrifa leikrit sem ég sendi í pósti út á land og reyndi að selja skólum. Svo vatt þetta upp á sig." Hann hefur gefið út þrjár ljóðabækur hjá Eddu, Klór frá árinu 2000, Hundabókina frá 2002 og Fífl dagsins sem gefin var út í hittifyrra, en hefur nú gengið til liðs við Nýhil.

"Það er heiður að fá að vera með vegna þess að þetta er kraftmikið fólk og ótrúlegur drifkraftur þarna að baki," segir Þorsteinn spurður um hvaða þýðingu það hafi fyrir hann að vera genginn í raðir Nýhils. "Þau eru að skrifa ljóð með nýja afstöðu. Mín kynslóð og eldri kynslóðir hafa verið uppteknar af því að hugsa hvort ljóðið væri þess virði að gera það, hvort það væri dautt og eitthvað svoleiðis. En þetta fólk er bara að vinna að ljóðlist eins og ekkert sé sjálfsagðara og mér finnst það mjög heilbrigt."

Þorsteinn segir þó að lesendur hans megi ekki láta ljóðatitilinn hræða sig frá bókinni. Í henni sé hann að gera það sem honum er tamt og að ljóðin séu alls ekki langt frá því sem hann sé búinn að vera að gera í uppistandi og gríni. "Fólk má ekki láta hræða sig frá bókinni að hún sé kölluð ljóðabók, því það má alveg eins kalla hana brandarabók, nótnabók eða hvað sem er. Bókin er fyrst og fremst fyrir þá sem hafa haft gaman af því sem ég er búinn að vera að gera." Hann segist geta fallist á að ljóðin sín séu að minnsta kosti hálfgert grín. "Fólk flissar upp úr bókinni og ég kann vel við það. Þar er ég á heimavelli," bætir Þorsteinn við.

Barkakýli úr tré er kilja í vasabókarbroti og kostar 1.890 kr. Útgefandi bókarinnar er Nýhil og Eiríkur Örn Norðdahl ljóðskáld ritar formála.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.