Lífið

Götukarfa á Miklatúni

Götukarfa Það verður væntanlega hart barist í götukörfuboltamótinu á Miklatúni um næstu helgi.
Götukarfa Það verður væntanlega hart barist í götukörfuboltamótinu á Miklatúni um næstu helgi.

Götukörfuboltamótið 305 verður haldið á Miklatúni um næstu helgi. Leikarinn Ívar Örn Sverrisson og tónlistarmaðurinn Sverrir Bergmann, sem standa fyrir mótinu, búast við góðri þátttöku.

"Við erum búnir að pæla í þessu lengi að það sé kominn tími á að endurvekja götuboltann á Íslandi," segir Ívar Örn Sverrisson. "Það er búið að vanta aðstöðu og við ýttum á eftir því að það yrði eitthvað gert. Núna eru komnar nýjar körfur í réttri hæð á Miklatúni og við erum að halda mótið í tilefni af því," segir hann, en rétt hæð er 305 sentimetrar eins og nafn mótsins ber með sér.

"Ég var í þessu þegar þetta stóð sem hæst þetta körfuboltaæði hérna heima. Það er synd að því var ekki fylgt eftir meira og það var eins og aðstaðan hyrfi smátt og smátt. Ég held að það sé forsenda fyrir því að það sé blómlegt körfuboltalíf hérna að það verði aðstaða fyrir krakkana að leika sér," bætir Ívar við. Vonast hann eftir því að mótið eigi eftir að festa sig í sessi í framtíðinni. "Ef það verður vel tekið í þetta mót sjáum við því ekkert til fyrirstöðu að reyna að hafa þetta árlegan viðburð."

Mótið hefst kl. 10.00 á laugardag og stendur yfir fram eftir degi. Hvert lið er skipað 3-4 leikmönnum en þrír keppa á móti þremur í hverjum leik með einn varamann. Keppt verður í fjórum flokkum, karla- og kvenna. Annars vegar fyrir 15-17 ára leikmenn og hins vegar 18 ára og eldri.

Skráningargjald er 500 kr. á hvern leikmann og er greitt á staðnum. Tilkynna þarf þátttöku á 305@hive.is. Senda þarf nöfn leikmanna og kennitölur, nafn liðsins og upplýsingar um rétta aldursflokkinn. Í verðlaun verða glænýir Nike körfuboltaskór og boltar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.