Viðskipti innlent

Kaupmáttur hefur ekki rýrnað

Ingvar Arnarson Greiningardeild Glitnis segir að hækkun launavísitölunnar í júlí megi rekja til samkomulags ASÍ og SA.
Ingvar Arnarson Greiningardeild Glitnis segir að hækkun launavísitölunnar í júlí megi rekja til samkomulags ASÍ og SA.

Launavísitalan hækkaði um 1,7 prósent á milli júní og júlí og hefur vísitalan hækkað um 10,2 prósent síðastliðna tólf mánuði, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Til samanburðar mældist 8,6 prósenta verðbólga á sama tímabili.

Ingvar Arnarson, sérfræðingur hjá greiningardeild Glitnis, segir hækkunina margfalda á við það sem vanalega sjáist í þessum mánuði. Megi rekja hækkunina til samkomulags Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins í síðasta mánuði. Í samkomulaginu felst 5,5 prósenta launahækkun og fimmtán þúsund króna hækkun ofan á lægstu kauptaxta.

Ingvar segir það áhugavert að á síðastliðnum tólf mánuðum hafi laun hækkað um 10,2 prósent, sem merki að kaupmáttur hafi í raun ekki dregist saman þrátt fyrir að verðbólguskotið sé að ganga yfir. Það hefur hægt á vexti kaupmáttar en hann hefur ekki rýrnað á þessu tólf mánaða tímabili, segir hann.

Ingvar segir ennfremur mikla spennu á vinnumarkaði og aðstæður þannig að hætta sé á launaskriði. Þessi hækkun og það ástand sem ríkir getur skapað undirliggjandi verðbólguþrýsting og getur dregið úr líkum á að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiðum sínum í bráð, segir hann en bætir við að greiningardeild Glitnis standi við spá sína um að markmið bankans náist í lok næsta árs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×