Lífið

Erfitt að dansa í takt

Skemmtileg hljóðfæraskipan Hljómsveitin Moskvitsj heldur lokatónleika sumarvertíðarinnar á Kaffi Cultura í kvöld og flytur þar hressa og skemmtilega tónlist þótt angurværu lögin hljómi líka inni á milli.
Skemmtileg hljóðfæraskipan Hljómsveitin Moskvitsj heldur lokatónleika sumarvertíðarinnar á Kaffi Cultura í kvöld og flytur þar hressa og skemmtilega tónlist þótt angurværu lögin hljómi líka inni á milli.

Hljómsveitin Moskvitsj lýkur sumarvertíð sinni á Íslandi í kvöld með tónleikum á Kaffi Cultura. Þetta eru síðustu forvöð fyrir aðdáendur sveitarinnar að sjá hana þetta árið því tveir fimmtu hlutar Moskvitsj flytjast til Svíþjóðar á morgun og leggst sveitin þar með í vetrardvala.

Moskvitsj hefur starfað frá vorinu 2005 og lagði upp með að leika búlgörsk þjóðlög. "Búlgörsk þjóðlagatónlist er yfirleitt mjög hress og oft í mjög skrítnum takttegundum," segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir blokkflautuleikari sveitarinnar og nefnir dæmi um takttegundina fimmtán áttundu. "Þótt fólki finnist gaman að dansa við það er mjög erfitt að dansa í takt," bætir hún við.

Efnisskrá hljómsveitarinnar hefur síðan breyst og orðið fyrir grískum áhrifum og norrænum, ásamt því að nokkrir meðlimir hafa notað sveitina til að koma eigin hugarverkum á framfæri. Að sögn Steinunnar leikur Moskvitsj mest til hröð, hress og skemmtileg lög, þótt þessi lágstemmdu og angurværu fái einnig að hljóma með.

Í Moskvitsj eru auk Steinunnar þau Kristín Þóra Haraldsdóttir sem leikur á fiðlu og víólu, Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir sellóleikari og gítarleikararnir Hafdís Bjarnadóttir og Alexander Simm, sem reyndar hefur næstum því gefið gítarinn upp á bátinn og heillast af hljóðfærinu melódikku.

Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 21 á Kaffi Cultura við Hverfisgötu og kostar fimm hundruð krónur inn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.