Lífið

Margir eldklárir keppa í hrútaþukli

Færustu hrútaþuklarar landsins leggja nú lokahönd á undirbúning fyrir árlegt meistaramót í hrútaþukli sem haldið verður á Ströndum um helgina. Fer mótið fram í Sauðfjársetrinu í Sævangi, skammt sunnan við Hólmavík, og má eiga von á að hundruð manna leggi leið sína á mótið.

"Í fyrra komu um þrjú hundruð og við búumst við þeim fjölda, þótt ekki keppi nema svona sextíu til sjötíu. Hinir eru bara að koma að sýna sig og sjá aðra," segir Jón Jónsson, skipuleggjandi meistaramótsins. Keppt er í tveimur flokkum, flokki reyndra hrútadómara og þeirra sem eru óvanir í hrútaþukli, og segir Jón að Strandamenn séu færir í hrútadómum enda sé svæðið þekkt fyrir sauðfjárrækt. "Eitt árið unnu heimamenn en síðustu ár hafa utanhéraðsmenn unnið okkur Strandamenn í þessu, bara komið og hrifsað verðlaunin," segir Jón. Hann bætir við að í flokki reyndra hrútadómara vinni yfirleitt bændur þótt vinningshafi síðasta árs hafi einnig verið kjötmatsmaður.

Handhafi meistaramótstitilsins heitir Björn Þormóður Björnsson á Ytra-Hóli í Vindhælishreppi og segir Björn að vel geti farið svo að hann taki þátt í mótinu um helgina. Aðspurður segist hann þó ekki fara þangað til að verja meistaratitil sinn. "Engum hefur tekist að verja titilinn, enn sem komið er. Það er ekkert gefið í þessu fyrirfram, þeir eru eldklárir margir í þessu," segir Björn sem bætir við að keppnin sé nú aðallega gerð til gamans og úrslitin geti því fallið hvernig sem er. Björn segir að keppnin snúist alls ekki eingöngu um hrútaþukl heldur þarf einnig að nota augun og fleira. "Mér þykir hrútaþukl vera hálf skrítið orð, þetta eru eiginlega bara hrútadómar," bætir Björn við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.