Lífið

Þar sem hádegisverðurinn er ókeypis

'Það var margt um manninn á sólpallinum hjá Gunnari frystihússtjóra á föstudagskvöldið.
'Það var margt um manninn á sólpallinum hjá Gunnari frystihússtjóra á föstudagskvöldið.

Um þrjátíu þúsund manns lögðu leið sína á Fiskidaginn mikla á Dalvík á laugardaginn var. Hátíðin þótti takast með eindæmum vel og skemmtu ungir sem aldnir sér saman langt fram á kvöld.

Þetta er í þriðja sinn sem Fiskidagurinn mikli er haldinn á Dalvík og eins og undanfarin ár er gestum boðið upp á ókeypis fiskrétti af ýmsu tagi. Meðal þess sem boðið var upp á var fiskisúpa, elduð í stærsta súpupotti sem um getur hér, fiskborgarar, hrefnu­sushi og saltfiskvöfflur. Gestir hátíðarinnar átu flestir á sig gat.

Dalvíkingar, bæði heimamenn og brottfluttir, sáu um skemmtiatriðin en kynnir á hátíðinni var Júlíus Júlíusson sem jafnframt er framkvæmdastjóri hennar.

Á föstudagskvöld, daginn fyrir Fiskidaginn mikla, var Fiskisúpukvöldið mikla haldið. Þá opna Dalvíkingar hús sín upp á gátt og bjóða gestum og gangandi rjúkandi fiskisúpu. Gunnar Aðalbjörnsson, frystihússtjóri á Dalvík, var meðal þeirra sem bauð upp á fiskisúpu. Þegar blaðamann Fréttablaðsins bar að garði taldi Gunnar að um 350 manns hefðu komið og gætt sér á gómsætri súpu á sólpallinum í garðinum hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.