Lífið

Hnífamaður ruddist inn í stúdíó X-ins

Frosti Logason
Segir að uppá­koma eins og varð um helgina muni ekki endurtaka sig.
Frosti Logason Segir að uppá­koma eins og varð um helgina muni ekki endurtaka sig.

"Ég get ekki ímyndað mér hvað þessi maður taldi sig eiga sökótt við mig. Hann á að hafa sagt að ég hafi gert grín að sér í þættinum Blautt malbik á föstudagskvöldið," segir rapparinn og útvarpsmaðurinn Halldór Halldórsson, eða Dóri DNA eins og hann er oftast kallaður.

Sú undarlega uppá­koma átti sér stað um miðjan dag á laugardag að maður vopnaður hnífi ruddist inn í hljóðver útvarpsstöðvarinnar X-ins 977 og heimtaði að ná tali af Dóra DNA. Þegar þetta gerðist var Egill "Gillzenegger" Einarsson í hljóðverinu með þáttinn Með'ann harðan.

"Ég var nú ekki á staðnum en mér skilst að Egill og félagar hafi náð að róa manninn niður," segir Frosti Logason, dagskrárstjóri X-ins 977. "Þessi maður hafði uppi ógnandi tilburði við starfsfólk okkar og hótaði meðal annars að rústa stúdíóinu okkar. Hann fór reyndar á brott án þess að rústa neinu, hann gerði víst ekki meira en að stinga hnífnum í útsendingar­borðið okkar," segir Frosti enn fremur.

Hvorki Frosti né Dóri DNA segjast vita hvað manninum gekk nákvæmlega til með þessu uppátæki. "Maður veit náttúrlega hvernig þessir rapparar eru, sífellt skjótandi og stingandi hvern annan," segir Frosti á léttum nótum. Hann viðurkennir þó að starfsfólki X-ins hafi ekki staðið á sama og öryggisráðstafanir á stöðinni hafi þegar verið efldar. "Svona lagað gerist ekki aftur," segir Frosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.