Lífið

Safnhaugur í heilastað

Sylvía Vanden Heeden rithöfundur Varð rithöfundur fyrir slysni en hefur verið sískrifandi síðan.
Sylvía Vanden Heeden rithöfundur Varð rithöfundur fyrir slysni en hefur verið sískrifandi síðan. MYND/Pjetur

Flæmski rithöfundurinn Sylvía Vanden Heeden líkir höfuðinu á sér við safnhaug. Þar sé allt fullt af handahófskenndum upplifunum en í óreiðunni verða samt til frjósamar afurðir og ein þeirra er sagan um Rebba og Héru.

"Ég byrjaði að skrifa því ég gat ekki gert neitt annað," segir Sylvía kímin. "Ég ætlaði mér að verða listamaður og fór í listaskóla. Ég hef verið að skrifa smásögur frá því ég var 9-10 ára og mig dreymdi um að skrifa bækur en óraði aldrei fyrir því að neitt yrði gefið út." Hún segist jafnan hafa byrjað með mikilfenglegan titil og langan efnislista. "Ég byrjaði á einum kafla og skrifaði annan og kannski síðustu setninguna í sögunni en kláraði aldrei það sem þurfti að vera á milli. Maður þarf sjálfsaga til að skrifa bækur og ég hafði hann hreinlega ekki."

Núna er Sylvía búin að skrifa liðlega þrjátíu bækur af ýmsum toga. Eftir að hún hreppti verðlaunasæti í samkeppni um sögur fyrir unga lesendur kom fyrsta bókin hennar út, 1987, og hún hefur verið sískrifandi síðan. "Allt í einu var ég orðinn rit­höfundur, eins og fyrir algjöra slysni," segir hún í gríni.

Sylvía segist skrifa allt nema ljóð. "Bækurnar mínar eru mjög ólíkar, ég skrifa fyrir börn á aldrinum 6-16 ára en líka myndabækur fyrir yngri lesendur, sögulegar skáldsögur og sálfræðilegar sögur fyrir fullorðna. Ég skrifa fantasíur eins og Rebba og Héru en líka sögur um dýr sem ekki ganga í fötum eða tala," áréttar hún.

Reyndar gleyma lesendur oft að hún hefur skrifað fleiri bækur en sögurnar um þá títtnefndu vini. "Það hafa komið út átta bækur um þau og sú fyrsta er komin út á íslensku." Sögurnar um Rebba, Héru og vini þeirra þykja með eindæmum hugljúfar og hafa notið gríðarlegra vinsælda um allan heim á undanförnum árum.

Fyrsta bókin um Rebba og Héru segir frá vetri í skóginum og er sérstaklega hugsuð fyrir börn sem eru að byrja að lesa. "Ég skrifaði þessa bók með unga lesendur í huga. Þeim finnst auðveldara að byrja á stuttum orðum og setningum en svo lengjast þau eftir því sem líður á söguna. Þetta er svona saga sem vex með barninu en það er auðvelt að byrja á henni." Sögurnar hafa ílengst á metsölulistum um alla Evrópu og hugmyndin hefur undið talsvert upp á sig, búið er að gera tölvuleiki eftir bókunum og gefa út orða- og uppskriftabók í sömu seríu.

Sylvía segist sjaldan þurfa að leita innblásturs fyrir skriftirnar, hugmyndirnar flæði nokkuð greiðlega en hún líkir höfðinu á sér við safnhaug. "Ég er ekki með heila, bara safnhaug," segir hún hlæjandi. "Þú veist að safnhaugurinn er í raun og veru bara rusl en úr honum verður samt frjósamur jarðvegur. Allt sem ég sé og upplifi fer á safnhauginn, flestu gleymi ég, eins og til dæmis hvar ég set lyklana mína, en svo geta verið litlir hlutir eða hugmyndir þar sem breiða úr sér, blómstra og úr verður saga."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.