Innlent

Myndavélar sjá um gæsluna

Frá hafnarbakkanum Deilt hefur verið um það að undanförnu hvort eðlilegt hafi verið að hætta að manna öryggisgæslu við kaupskip við höfnina í Reykjavík.
Frá hafnarbakkanum Deilt hefur verið um það að undanförnu hvort eðlilegt hafi verið að hætta að manna öryggisgæslu við kaupskip við höfnina í Reykjavík.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir öryggisgæslu við hafnir í Reykjavík ekki hafa slaknað þó að mönnuð sólarhringsgæsla við kaupskip við Vogabakka, Ártúnshöfða, Korngarð og vesturhöfn í Reykjavík hafi verið hætt hinn 28. mars síðastliðinn.

"Öryggisgæsla hefur verið efld við hafnirnar á undanförnum árum. Hafnarsvæðið er vaktað allan sólarhringinn með myndavélum og þá er mjög vel fylgst með aðgengi að höfnum."

Í Fréttablaðinu í gær lýsti Agnar Þór Agnarsson, verkefnisstjóri Öryggismiðstöðvarinnar, því yfir að sú ákvörðun að hætta með mannaða öryggisgæslu væri ekki í takt við alþjóðlegar áherslur í öryggisgæslu, þar sem víðast hvar erlendis væri verið að efla öryggisgæslu.

Í grein á vefsvæði Samtaka atvinnulífsins er frá því greint að kostnaður vegna laga sem sett voru til þess að tryggja vernd skipa, áhafna, farþega og farms fyrir hvers kyns ógn af hryðjuverkum, og öðrum ólögmætum aðgerðum væri um 500 milljónir króna á ári.

Pétur Reimarsson, verkefnisstjóri hjá Samtökum atvinnulífsins, segir kostnaðinn leggjast á atvinnulífið. "Þessi kostnaður leggst á fyrirtæki og neytendur í landinu og er innheimtur af höfnum og skipafélögum. Mikil óánægja hefur ríkt vegna þessa kostnaðar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×