Innlent

Kemur að rekstri Vikunnar

Mikael Torfason  Hinn nýi ritstjóri vikuritsins Séð og heyrt.
Mikael Torfason Hinn nýi ritstjóri vikuritsins Séð og heyrt.

Fróði hefur ráðið Mikael Torfason, fyrrverandi ritstjóra DV, sem ritstjóra blaðsins Séð og heyrt. Hann fær einnig það verkefni að koma að rekstri Vikunnar næstu mánuði. Ritstjórum blaðanna Séð og heyrt og Vikunnar var sagt upp fyrir mánaðamót og ritstjórnarfulltrúa Séð og heyrt sömuleiðis.

Elín Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fróða, segir að ástæða uppsagnanna sé rekstrarleg og mikil vinna sé framundan, verið sé að endurskipuleggja Vikuna og komi Mikael að þeirri vinnu. Hann sé þegar mættur til starfa. Ekki standi til að selja nein af tímaritum Fróða.

Páll Baldvin Baldvinsson, ritstjóri DV, hefur sagt upp Breka Logasyni, ritstjóra tímaritsins Hér og nú, og nokkrum blaðamönnum DV hefur einnig verið sagt upp starfi. Einn þeirra verður, að sögn Páls Baldvins, endurráðinn á annað blað 365 prentmiðla.

Páll Baldvin segir að breytingarnar nú séu framhald á þeim breytingum sem urðu fyrir mánuði þegar hætt var að gefa út DV sem dagblað og farið að gefa það út sem helgarblað. DV hafi fylgt tvö undirblöð, Sirkus og Hér og nú. Ekki náðist í Mikael Torfason í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×