Innlent

Vilja frekari sameiningu slökkviliða

Vernharð Guðnason
Vernharð Guðnason

Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna samþykkti ályktun um öryggismál á þingi sínu sem haldið var nýverið. Þar segir meðal annars að sameina þurfi slökkviliðin á Suðvesturlandi í eitt öflugt björgunarlið.

Í ályktuninni segir að orðið slökkvilið sé rangnefni fyrir það alhliða björgunarlið sem slökkvilið eru orðin. Slökkvilið sinni margháttaðri björgunarstarfsemi langt umfram það sem almenningi er kunnugt um. Þar megi nefna sjúkraflutninga og margháttaða starfsemi sem er af þeim meiði, svo sem björgun og meðhöndlun bráðveikra og slasaðra sem séu í eðli sínu björgunarstörf þar sem kappkostað sé fyrst og fremst að bjarga mannslífum. Einnig megi nefna viðbrögð við eiturefnaslysum.

Það myndi hafa mikil samlegðaráhrif að efla og stækka slökkviliðin á suðvesturhorninu og ætti ríkisstjórnin og sveitarfélögin án tafar að semja um sameiningu þeirra.

Í ályktuninni er einnig óskað eftir að virðisaukaskattur og vörugjald af tækjum og búnaði fyrir slökkvilið verði afnuminn og Brunamálaskólinn verði efldur með auknum fárveitingum. Þá er lagt til að gerð verði rannsókn á lífaldri slökkviliðsmanna og að þeim verði gert kleift að hætta störfum um 55 ára aldur án skerðingar lífeyrissjóðsgreiðslna.

Vernharð Guðnason var einróma endurkjörinn formaður sambandsins til tveggja ára og Sverrir Björn Björnsson var endurkjörinn í embætti varaformanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×