Innlent

Sex mánuðir fyrir skjalafals

Sambýlismaðurinn kannaðist ekki við að hafa undirritað skuldabréf, víxla og fleiri skjöl.
Sambýlismaðurinn kannaðist ekki við að hafa undirritað skuldabréf, víxla og fleiri skjöl.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær konu í sex mánaða fangelsi, skilorðsbundið í þrjú ár, fyrir margþætt skjalafals. Ákæruliðir sem voru níu talsins vörðuðu fölsun á undirskriftum á skuldabréfum, víxlum og fleiru upp á ríflega 7,2 milljónir króna.

Konan var í sambúð til ársins 2002. Í marsmánuði 2001 komst sambýlismaðurinn að því að fasteign sem hann átti hafði verið auglýst á framhaldsuppboði. Komst hann enn fremur að raun um að það væri vegna skulda sem hann kannaðist ekki við að hafa samþykkt eða heimilað að fasteignin yrði sett að veði fyrir.

Konan hafði áður reynt að leysa skuldamál sín með því að falsa nafn sambýlismannsins, en nú var mælirinn fullur. Sambýlismaðurinn kærði meintar falsanir til sýslumannsins í Kópavogi og fór fram á opinbera rannsókn á því hvort konan hefði falsað nafn hans á ýmis skjöl.

Konan neitaði sök og var því leitað álits sænsks rithandar­sérfræðings, sem kvað upp úr með að sambýlismaðurinn hefði ekki undirritað umrædd skjöl.

Dómurinn kvað liggja fyrir að konan hefði framvísað þeim skjölum sem ákæran varðaði og notið góðs af því. Auk fangelsisdómsins var henni gert að greiða allan sakarkostnað, ríflega 460 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×