Innlent

Íslendingar í laxveiði til útlanda

Laxveiðiár hér á landi eru sífellt að verða dýrari og eru íslenskir veiðimenn farnir að leita í auknum mæli til útlanda til að stunda þessa iðju. Þá eru erlendir veiðimenn einnig farnir að leita annað en hingað til lands og eru Rússland og Argentína ofarlega á listanum, en Ísland hefur verið einn vinsælasti áfangastaður veiðimanna til þessa. Páll Þór Ármann, framkvæmdastjóri Stangaveiðifélags Reykjavíkur, segir menn hafa áhyggjur af þessum málum. Þetta sé þróun sem stangaveiðifélagið ráði ekki alltaf við. Veiðileyfi í stærri og dýrari ár hækki en þó verðinu sé haldið óbreyttu í krónum talið milli ára hafi gengisþróun verði veiðifélögum afar óhagstæð og það sé erfitt. Páll segir þó mikilvægt að horfa á málið í heild sinni, verð hafi ekki hækkað í öllum ám, bara þeim bestu. Sem dæmi um hversu mikið dýrustu ár landsins hafa hækkað á undanförnum árum kostar dagurinn í Norðurá á tímabilinu 24.-27. júní 56 þúsund krónur. Á sama tímabili árið 2000 var þessi upphæð 33 þúsund krónur. Páll segist ekki sjá fyrir verðlækkanir á þeim ám sem eru hvað dýrastar en hvaða áhrif það muni hafa á erlenda veiðimenn geti hann ekki sagt til um. Sem betur fer eru ekki allar ár jafndýrar og Norðurá og laxveiðimenn geta enn fundið ár tiltölulega góðu verði. Til að mynda kostar hálfur dagur í Elliðaánum aðeins 8.200 krónur og ekki stendur til að breyta því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×