Erlent

Minntust fórnarlamba Helfarar

Fjöldi manna safnaðist saman við hinar alræmdu útrýmingarbúðir nasista í Auschwitz í Póllandi í dag til þess að taka þátt í Göngu hinna lifandi á svokölluðum minningardegi um Helförina. Gangan hefur verið árviss viðburður í 17 ár en gengið er um þriggja kílómetra leið að Birkenau-búðunum þar sem þeirra sem létust í búðunum verður minnst. Meðal gesta við minningarathöfnina voru Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels og forsætisráðherra Póllands og Ungverjalands. Útrýmingarbúðirnar í Auschwitz og Birkenau voru þær stærstu sem nasistar reistu í Póllandi í síðari heimsstyrjöldinni og þar var framfylgt stefnu Adolfs Hitlers um útrýmingu allra gyðinga í Evrópu. Meira en milljón gyðinga var líflátin í gasklefunum í Birkenau, þar af rúmlega 400 þúsund frá Ungverjalandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×