Innlent

Geitungastofninn hruninn

Útlit er fyrir að íslenski geitungastofninn hafi hrunið síðastliðið sumar að sögn Erlings Ólafssonar, skordýrafræðings hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. "Á þessum tíma í fyrra var algjört kraðak af geitungum en ástandið núna er allt annað, það hafa aðeins örfá kvikindi sést," segir Erling. "Ég tel ástæðuna vera að stofninn hafi hrunið í ágúst í fyrra en það er samt bara tilgáta." Erling segir að það hafi ekki verið kuldakast sem hafi valdið þessu hruni heldur þvert á móti mikill hiti. Hitabylgjan sem gekk yfir landið síðsumars hafi komið í kjölfar nokkurrar vætutíðar. Við það hafi skapast aðstæður sem líklega hafi hrundið af stað gerla- og sveppasýkingum í geitungabúum. "Fjöldi geitunga dó sem þýðir að það varð lítil nýliðun. Búin náðu ekki að framleiða drottningar og því á ég von á að það verði lítið um geitunga í sumar. Það eru allavega engar forsendur fyrir því að það verði mikið um geitunga eins og í fyrra." Erling segir að svo virðist sem hunangsflugustofninn hafi sloppið því töluvert mikið hefur sést af hunangsflugum það sem af er sumri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×