Lífið

Besta náttúrulega heilsulind heims

Bláa Lónið varð fyrir valinu sem besta náttúrulega heilsulind í heimi af lesendum breska ferðatímaritsins Condé Nast Traveller. Þetta er í annað skipti sem verðlaunin eru veitt en í fyrra varð Bláa Lónið í áttunda sæti. Í öðru sæti varð hið virta og fræga spa-hótel, Perme Di Saturnia Spa Resort, í Toscana héraði á Ítalíu. "Þetta er í annað skipti sem blaðið biður lesendur sína að velja áhugaverðustu heilsulind í heimi og við lentum í fyrsta sæti meðal þeirra heilsulinda sem byggja á heitu vatni. Við erum þarna í góðum félagsskap og efst í okkar flokki. Þetta sýnir hvað útlendingum þykir Ísland vera áhugaverður staður að heimsækja," sagði Anna G. Sverrisdóttir aðstoðarframkvæmdastjóri Bláa Lónsins. Bláa Lónið er sífellt að bæta við starfsemi sína og í vor verður opnuð ný húðlækningastöð. "Við erum líka að byggja yfir vöruframleiðsluna okkar og sífellt að bæta við nýjum vörum. Það besta við lónið er hin einstaka samsetning af blágræna þörungnum, kísilnum og saltinu í vatninu sem er svo gott fyrir líkama og sál." Það er greinilegt að Bláa Lónið hefur unnið sér sess sem einstök heilsulind á heimsmælikvarða. Anna segir þó að lesendurnir sem settu Lónið í fyrsta sæti hafi ekki endilega sjálfir komið þangað. "Nei það þarf ekki að vera. Það er frekar þannig að þetta er staður sem fólki langar til að heimsækja og vonandi munu sem flestir láta verða af því."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.