Innlent

Bandaríkin fá skömm í hattinn

Bandarísk stjórnvöld fá skömm í hattinn í nýrri skýrslu Amnesty International fyrir árið 2004. Þar eru sérstaklega tiltekin mannréttindabrot á föngum í Guantanamo-flóa á Kúbu sem þar er haldið án dóms og laga. Í skýrslunni segir að við árslok 2004 hafi fleiri en 500 föngum af um 35 þjóðernum verið haldið án ákæru eða dóms vegna óstaðfestra tengsla við al-Kaída-hryðjuverkasamtökin eða talíbanastjórnina í Afganistan. Einnig er sértaklega tekið fram að bandarísk stjórnvöld hafi nú leyft yfirheyrsluaðferðir sem stríða gegn sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn pyntingum. Jóhanna K. Eyjólfsdóttir, framkvæmdastjóri Íslandsdeildar Amnesty, benti á að Bandaríkjamenn hefðu orðið uppvísir af því að flytja fanga til landa þar sem mannréttindi eru ekki virt til þess eins að geta farið á svig við alþjóðasáttmála án þess að eftir því sé tekið. Amnesty berst nú fyrir því að fangar í Guantanamo verði kærðir og fái lagalega meðferð ellegar látnir lausir. Nánar verður fjallað um ársskýrslu Amnesty í Fréttablaðinu um helgina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×