Innlent

Íslendingur með hermannaveiki

Íslenskur karlmaður sem greinst hefur með hermannaveiki liggur þungt haldinn á gjörgæsludeild Landspítala - háskólasjúkrahúss. Að sögn vakthafandi læknis er ástand mannsins stöðugt. Maðurinn kom heim frá Rómarborg í síðustu viku og veiktist fljótlega eftir heimkomuna. Ekki er vitað hvar maðurinn smitaðist og jafnvel ógjörningur að komast að því þar sem bakteríur sem valda hermannaveiki eru víða í umhverfinu. Grunur beinist þó að hóteli sem maðurinn dvaldi á. Ferðir mannsins verða kortlagðar af íslenskum heilbrigðisyfirvöldum. Hermannaveiki hefur áður komið upp hérlendis og að sögn Haraldar Briem sóttvarnarlæknis koma upp tilfelli af veikinni af og til en þau eru þó frekar sjaldgæf. Eitt dæmi er um hópsýkingu en það var á Landspítalanum fyrir um 15 árum en sýkingin var rakin til vatns sem safnast hafði fyrir í sturtuhausum. Hiti og raki er helsta gróðrarstía baktería sem valda hermannaveiki.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×