Erlent

Ofbeldisverkum fjölgar aftur

Ofbeldismenn láta nú í vaxandi mæli til sín taka í Írak og mannfall er þar töluvert. Ekki færri en fjórir fórust í fjölda hryðjuverkaárása víðs vegar um landið í morgun. Eftir kosningarnar í Írak í janúar virtist sem uppreisnar- og hryðjuverkamenn hefðu nánast gefist upp. Ráðamenn hersetuveldanna vöruðu þó við því að andspyrna yrði viðvarandi vandamál um hríð. Undanfarið hefur þó mátt skilja þá sem svo að þeir álíti það versta afstaðið og andspyrnumennirnir virðast hafa orðið varir við það. Fréttamenn í Írak segja margt benda til þess að ný hrina árása sé hafin. Undanfarna daga hefur hver mannskæð árásin rekið aðra og mannfall er töluvert, sambærilegt á við sama tíma í fyrra, þó að fjöldi árása nú sé aðeins um þriðjungur þess sem var fyrir kosningar. Einnig hefur orðið breyting á skotmörkum. Þau eru ekki lengur fyrst og fremst bandarískir hermenn heldur írakskir hermenn, lögregla og á köflum óbreyttir borgarar. Að jafnaði falla tveir bandarískir hermenn daglega og árásir í gær kostuðu átján manns lífið, en al-Qaida deild Abus Musabs al-Zarqawis lýsti þeim á hendur sér. Lík lágu á víð og dreif utan við veitingastað í Bagdad í morgun eftir bílsprengingu í nágrenninu. Að minnsta kosti fjórir slösuðust í árásinni sem beint var að bandarískri herbifreið sem átti leið hjá. Þá var einnig gerð sprengjuárás á bifreið írakskra þjóðvarðliða í Bagdad í morgun og þar féll einn í valinn og þrír særðust. Tveir írakskir hermenn féllu í árás í Samarra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×