Erlent

Mesti eldsvoði í París í 20 ár

Tuttugu fórust þegar hótel í miðborg Parísar brann nánast til grunna í morgun. Þetta er mesti eldur í borginni í tvo áratugi. Auk þeirra tuttugu sem týndu lífi eru meira en fimmtíu manns slasaðir, þar af nærri tuttugu lífshættulega. Meðal þeirra sem fórust eru sjö börn og óttast lögreglan að tala látinna geti hækkað. Staðfestu hefur verið að meðal fórnarlambanna var fólk frá Bandaríkjunum, Portúgal, Senegal, Fílabeinsströndinni, Túnis og Úkraínu. Ekki er vitað til þess að Íslendingar hafi verið gestir á hótelinu en það er ekki meðal hótela sem íslenskar ferðaskrifstofur hafa boðið upp á. Hótelið er sagt hafa verið vinsælt meðal innflytjenda. 250 slökkviliðsmenn voru þegar sendir á vettvang og tókst þeim að slökkva eldinn á neðstu hæðum hússins um klukkan þrjú í nótt en voru langt fram eftir morgni að berjast við eldinn á efri hæðum Paris-Opera hótelsins, sex hæða hótels skammt frá stórversluninni Galeries Lafayette. Aðstæður á vettvangi voru grimmilegar, aðeins einn stigi var í hótelinu og þegar eldur kviknaði á neðri hæðunum áttu þeir sem sváfu ofar sér enga undankomuleið. Nokkrir gestanna köstuðu sér út um glugga hótelsins í nótt þegar þeir voru komnir í sjálfheldu vegna elds og reyks. Óttast er að nokkur fjöldi fólks hafi hreinlega troðist undir þegar aðrir reyndu að komast út. Alls er talið að 76 gestir hafi verið á hótelinu þegar eldurinn braust út. Ekki er vitað hvað olli honum en á þessu stigi málsins leikur ekki grunur á að kveikt hafi verið í.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×