Viðskipti innlent

Stjórnarmenn bankans sæti ábyrgð

Stórir hluthafar í Straumi íhuga að láta opinbera matsmenn meta raunvirði Sjóvár-Almennra og að láta þá stjórnarmenn Íslandsbanka, sem gengu frá sölu á Sjóvá-Almennum út úr bankanum, sæta fjárhagslegri ábyrgð á hugsanlegum mismun á matsvirði og söluvirði. Forstjóri Straums og lögmaður eiga væntanlega fund um málið með Fjármálaeftirlitinu í dag. Að öðru leyti segja Straumsmenn, sem fréttastofan hefur rætt við í morgun, að þeir séu að meta stöðuna. Þeir segjast þó halda að gjörningurinn standist ekki og verði jafnvel látinn ganga til baka. Það geti einfaldlega ekki staðist, að þeirra mati, að nokkrir stjórnarmenn ákveði að selja stærstu eign bankans án þess að bera það undir hluthafafund Þeir rifja líka upp hversu talsmenn bankans lýstu fjálglega samlegðaráhrifum tryggingafélagsins og bankans þegar bankinn keypti Sjóvá-Almennar fyrir átján mánuðum. Þá hafi þeir einnig fullyrt að þetta væri langtímafjárfesting. Auk þess spyrja þeir sig af hverju bankinn seldi ekki allt hlutafé í Sjóvá-Almennum, en sitji nú eftir sem minnihlutaeigandi í félaginu. Samkvæmt heimildum fréttastofunnar fengu Straumsmenn pata af því fyrir 5-6 vikum að til stæði að selja Sjóvá. Þá strax lýstu þeir yfir áhuga við Bjarna Ármannsson bankastjóra að koma að samningaborðinu. Eftir því sem heimildarmenn fréttastofu segja mun Straumi þá hafa verið sagt að ekkert yrði úr sölunni. Þegar forsvarsmenn Straums fengu svo pata af því fyrir síðustu helgi að til stæði að selja, sendu þeir öllum stjórnarmönnum Íslandsbanka bréf og lýstu yfir vilja að að koma að kaupunum. Eina svarið sem þeir höfðu fengið við lok viðskipta í gær var: „Þið eigið von á bréfi.“ Straumsmenn benda meðal annars á að ef til vill hefði bankinn getað fengið hærra verð fyrir Sjóvá, ef fleirum hefði staðið kaupin til boða. Friðrik Jóhannsson, framkvæmdastjori Burðaráss, staðfesti við fréttastofuna að Burðarás hafi líka haft áhuga á að skoða möguleika á að kaupa Sjóvá-Almennar. Fréttastofan náði ekki að kanna fleiri hugsanlega kaupendur fyrir hádegið.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×