Innlent

Tottenham-maður á hafnfirsku fleyi

Velski knattspyrnumaðurinn Simon Davies, sem leikur með lundúnska liðinu Tottenham Hotspur, hefur keypt íslenskan bát í félagi við föður sinn og bræður. Verður hann gerður út á humar og krabba og mun Lee, eldri bróðir Simons, stjórna útgerðinni. Simon þykir skæður knattspyrnumaður en hann leikur á hægri kanti. Hraði og knattleikni eru hans helstu styrkleikar sem og næmt auga fyrir samspili. Haraldur Jónasson, formaður stuðningsmannaklúbbs Tottenham á Íslandi, er vitaskuld afar ánægður með bátakaup Simon Davies og tengir þau samstundis við þá staðreynd að Hafnfirðingurinn Emil Hallfreðsson er kominn í raðir Tottenham. "Emil hefur eflaust bent honum á gæði íslenskra báta," segir Haraldur en ekki er nóg með að báturinn sé íslenskur heldur er hann hafnfirskur eins og Emil. Hann er smíðaður hjá Trefjum í Hafnarfirði, sem framleiðir báta af ýmsum stærðum og gerðum. "Ég vona bara að þeir feðgar fiski vel á bátinn," segir Haraldur. Það er annars að frétta af knattspyrnumálum Simon Davies að hann hefur náð sér að mestu eftir vírus sem hrjáði hann lungann úr keppnistímabilinu og hefur hann nú leikið fimm leiki í röð með liðinu. "Þetta er mjög góður leikmaður og liðinu afar mikilvægur," segir Haraldur Tottenham-foringi á Íslandi, sem á þá ósk heitasta að liðið hans blandi sér á ný í röð þeirra allra fremstu á Englandi en Tottenham hefur átt heldur erfitt uppdráttar síðustu ár og áratugi. Þess má geta að stuðningsmannaklúbbur Tottenham í Cork á Írlandi valdi Simon Davies leikmann ársins 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×